Nigel Farage ætlar að hætta sem formaður breska sjálfstæðisflokksins UKIP. Þetta tilkynnti hann í morgun. „Í þjóðaratkvæðagreiðslunni sagði ég að ég vildi landið mitt aftur, nú vil ég fá líf mitt aftur.“
Sigur þeirra sem vildu yfirgefa Evrópusambandið þýðir að pólitískum metnaði hans hefði verið náð. Hann hafi ekki viljað verða atvinnupólitíkus.
„UKIP er í góðri stöðu og mun halda áfram, með fullum stuðningi mínum, til að fá talsvert fylgi. Þrátt fyrir að við förum nú út úr Evrópusambandinu eru skilyrði þess enn óljós.
Farage var einn þeirra sem leiddi baráttuna fyrir því að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið. Annar leiðtogi þeirrar baráttu, fyrrverandi borgarstjórinn Boris Johnson, tilkynnti fyrir helgi að hann myndi ekki sækjast eftir formennsku í Íhaldsflokknum og þar með forsætisráðuneytinu. Ákvörðun Johnson kemur verulega á óvart, enda var hann talinn einn líklegasti frambjóðandinn til þess að freista þess að taka við af David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra.
Cameron, sem studdi áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu, tilkynnti að hann hygðist hætta sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, eftir að Bretar kusu með því að yfirgefa sambandið.