Gunnar Hrafn Jónsson, fráfarandi fréttamaður á erlendu deild Fréttastofu RÚV, ætlar að sækjast eftir 2. sæti á lista Pírata í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Hann hefur nú skilað inn formlegri tilkynningu um að hann taki þátt í prófkjöri flokksins. Gunnar Hrafn segist á Facebook síðu sinni þó ætla að starfa með Pírötum hvernig sem prófkjörið fari.
„Mér finnst æskilegast að oddvitar okkar verði fólk sem hefur starfað innan flokksins í nokkurn tíma. Við eigum mikið af frábæru fólki með reynslu af ýmsum sviðum sem tekur þátt í prófkjörinu og ég á ekki von á öðru en að þetta verði frábærir listar,“ skrifar Gunnar Hrafn á Facebook og deilir þar viðtali við Harmageddon á X-inu.
Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri, sóttist eftir oddvitasæti Pírata á Akureyri en hafnaði í því sjöunda eftir prófkjör. Hann hafði ekki unnið lengi með flokknum og sagði skilið við hann eftir að niðurstöðurnar urðu ljósar. Þá viðraði hann þá hugmynd að stofna nýjan flokk í kjölfarið en fór ekki lengra með það.
Gunnar Hrafn sagði upp starfi sínu sem fréttamaður á RÚV um síðustu helgi og sagðist þá vonast til þess að fara í prófkjör fyrir Pírata.