Níu ára drengur, sem ætlaði að sjá leik Íslands og Frakklands á EM í París á sunnudag með föður sínum, fékk ekki miðanna sem greitt hafði verið fyrir og komst þar af leiðandi ekki inn á völlinn. Vinur föður hans fannst fara ósanngjarnt að börn væru svikin með þessum hætti og setti í samband við Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkmann, með það í huga að gera eitthvað fyrir drenginn. Úr varð að hann kom og hitti landsliðsmennina þar sem þeir snæddu með eiginkonum sínum og kærustum eftir heimkomuna í gær og fékk hann auk þess áritaðan bolta.
Faðir drengsins setti inn stöðuuppfærslu á Facebook-svæði sem kallast „Ferðagrúbba fyrir EM 2016“ á sunnudagskvöld þar sem hann lýsti reynslu feðganna. Þar sagði hann að kvöldið, sem hefði átt að vera yndisleg stund með níu ára drengnum hans, hefði breyst í martröð þar sem þeir hefðu ekki fengið miðana sem þeir hefði verið lofað og búið var að greiða fyrir. Ástæðan var sú að Björn Steinbekk, sem hafði selt feðgunum og fjölmörgum öðrum miða langt yfir opinberu söluverði knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), gat ekki afhent þá þegar á hólminn kom.
Óskar Páll Elfarsson, vinur föður drengsins, setti síðan inn stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hann greindi frá því að honum hefði þótt „hrikalega ósanngjarnt að svíkja börn svona illa.“ Á Vísi kemur fram að hann hafi í kjölfarið sent skilaboð á Hannes Þór Halldórsson og úr hafi orðið að drengnum var boðið að koma og hitta landsliðshetjurnar í gærkvöldi þar sem hluti liðsins áritaði einnig bolta og færði honum að gjöf.
Miðarnir komu ekki frá UEFA
Athafnamaðurinn Björn Steinbekk seldi á fjórða hundruð Íslendingum miða á leik íslenska liðsins gegn Frakklandi á sunnudag. Mjög illa gekk að afhenda miðanna þegar komið var til Parísar og á endanum fengu nokkrir tugir Íslendingar, meðal annars nokkur börn, ekki miða þrátt fyrir að hafa verið búnir að borga fyrir þá hátt verð. Margir þeirra sem fengu miða hjá Birni voru mjög ósáttir með þá þar sem að miðarnir voru ekki á þeim svæðum vallarins sem lofað hafði verið heldur sat fólk sem ferðaðist saman á víð og dreif um stúkuna Frakklandsmegin.
Björn hélt því fram við RÚV í gær að hann hafi verið blekktur af starfsmanna miðasölu UEFA sem hafi lofað honum 400 miðum til sölu. Hann sendi tölvupóst sem honum hafði borist á fréttastofu RÚV til að undirbyggja mál sitt. Tölvupósturinn er undirritaður af „Nicole“. Þegar íslenskir fjölmiðlar höfðu samband við UEFA fékkst þar staðfest að engin Nicole starfi fyrir miðasölu sambandsins og að miðarnir sem Björn seldi hafi ekki komið frá því.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Björn ætli sér að endurgreiða þeim sem telja sig eiga kröfu til hans og að hann hafi tekið frá upphæð til þess.
Í fjöldapósti sem Björn sendi frá sér til þeirra sem voru sviknir um miða segir: „Vil byrja á að biðjast afsökunar á hvernig fyrir málum er komið. Hinsvegar veit ég að það skiptir litlu hvað ég segi heldur miklu frekar að gripið sé til aðgerða og ábyrgð sýnd í verki. Forum Lögmenn hafa tekið að sér að annast öll samskipti varðandi kröfur vegna endurgreiðslu á miðum. Á sama tíma hefur Forum lögmenn tekið við, til varðveislu, á meðan þetta mál verður leyst, fjárhæð sem ég tel að samsvari þeim miðafjölda sem ekki fékkst afhentur.“
Á meðal þeirra sem keyptu miða af Birni voru meðlimir í Tólfunni, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins, sem höfðu ferðast til Frakklands með styrkjum frá íslenskum fyrirtækjum til að taka þátt í að stýra stuðningi við íslenska landsliðið. Í Morgunblaðinu segir að nokkrir þeirra hafi ekki náð að sjá leikinn og aðrir sátu annað hvort einir eða langt frá íslensku stuðningsmönnunum.