Svo gæti farið að aðildarfélög Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fái um hálfan milljarð króna í styrki frá sambandinu í ár. Þegar var búið að ákveða að þau myndu fá 300 milljónir króna vegna þess að íslenska karlalandsliðið tryggði sér þátttöku á EM í knattspyrnu. Frábær árangur liðsins, sem komst í átta liða úrslit á mótinu, gerði það að verkum að sú upphæð sem KSÍ fékk frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) fyrir þátttöku fór úr 1,1 milljarði króna í 1,9 milljarða króna. Ef miðað er við að upphæðin sem fellur íslensku félögunum í skaut hækki í sama hlutfalli og tekjur KSÍ af EM þá verður upphæðin um 518 milljónir króna. Hins vegar verður að taka mið af því að kostnaður vegna þátttöku landsliðsins jókst sökum þess hversu vel gekk og greiðslur til leikmanna hækkuðu sömuleiðis umtalsvert. Það gæti lækkað greiðslur til aðildarfélaganna.
Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag er haft eftir Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, að ekki sé enn búið að ákveða hvernig fénu verði skipt á milli félaganna en að hann vonist til þess að það skýrist síðar í þessum mánuði.
Stjórn KSÍ sem ákveður hvernig gullpotturinn skiptist
Það verður stjórn KSÍ sem tekur ákvörðun um hvernig fénu verður skipt og ljóst er að um mikla búbót verður fyrir þau.
Kjarninn greindi frá því í febrúar að á árinu 2015 hafi félögin í Pepsí-deild karla fengið 40 milljóna króna styrk frá UEFA vegna barna- og unglingastarfs. KSÍ greiddi síðan öðrum aðildarfélögum en þeim sem léku í Pepsí-deild karla 41,5 milljónir króna (um 28 prósent af heildarkökunni), félögum í Pepsí-deild karla 71,1 milljón króna vegna útsendingar- og markaðsréttar (48 prósent) og félögum í leyfiskerfi KSÍ 22,8 milljónir króna (16 prósent). Þá greiddi KSÍ 11,6 milljónir króna (átta prósent) í ferðaþátttökugjald, verðlaunafé og fleira á árinu 2015. Samtals gera þessar greiðslur KSÍ til aðildarfélaga 147 milljónir króna.
Í fjárhagsáætlun KSÍ, sem birt var í febrúar, kom fram að styrkir og framlög til aðildarfélaga KSÍ væru áætlaðir 413 milljónir króna á árinu 2016, en voru 147 milljónir króna í fyrra. Inni í þeirri tölu voru þær 300 milljónir króna sem skipta átti niður á aðildarfélög vegna þátttöku Íslands á EM. Um var að ræða langhæstu tölu sem KSÍ hefur ætlað að deila út til aðildarfélaga og nú er ljóst að hún mun hækka enn frekar.
Kostnaður KSÍ vegna mótsins hefur einnig hækkað, þótt ekki liggi með öllu fyrir hversu hár hann er. Þar skiptir máli að liðið var á endanum í heilan mánuð í Frakklandi með tilheyrandi kostnaði vegna uppihalds. Auk þess greindi Morgunblaðið frá því í gær að leikmenn og þjálfarar muni, samkvæmt útreikningum blaðsins, skipta á milli sín greiðslu upp á 950 milljónir króna vegna árangursins. Það þýðir að hver og einn mun fá um 38 milljónir króna að meðaltali.