Nokkur ný framboð ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum í næstu alþingiskosningar. Meðal þeirra eru Flokkur fólksins og Alþýðufylkingin. Sú síðarnefnda er reyndar ekki að bjóða fram í fyrsta sinn, en í síðustu kosningum árið 2013 bauð flokkurinn fram í Reykjavík og hlaut 0,1 prósent atkvæða.
„Ætlaði að reisa skjaldborg en reisti bara gjaldborg“
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir vinnuna vera að fara vel af stað. Fyrsti opni kynningarfundurinn var haldinn 1. júlí og nú sé sú vinna framundan að fullgera stefnurnar og úrlausnirnar.
„Þetta er eini, sanni velferðarflokkurinn sem er í boði í dag,“ segir Inga og bætir við að enginn annar flokkur boði alvöru velferðarsamfélag. „Ekki einu sinni þessi uppgjafar-Samfylking sem ætlaði að reisa skjaldborg en reisti bara gjaldborg.“
Inga segir Flokk fólksins ætla að koma í veg fyrir að nokkurt barn verði svangt á Íslandi.
„Við erum að fá alveg ofboðslega góðar undirtektir og fallegar móttökur. Ég geri ekki annað en að búa til flokksskírteini og senda út á land og út um allt,“ segir hún. Raðað verður á lista í öllum kjördæmum, en Inga furðar sig á því að engin tímasetning sé komin fyrir kosningarnar.
„Það er frekar dapurt,“ segir hún. „Við trúum því að þeir háu herrar, fjármálaráðherra og nýi forsætisráðherrann, standi við orð sín og það verði kosið í haust. Það verður skemmtileg tilbreyting.“
Fjöldi sem kjósi VG af praktískum ástæðum
Alþýðufylkingin ætlar sér einnig að bjóða fram í öllum kjördæmum. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður flokksins, segir vinnunni miða ágætlega. Uppstilling á lista sé komin vel áleiðis í flestum kjördæmum og vonast sé til að birta lista upp úr næstu mánaðarmótum.
Eins og áður segir hlaut Alþýðufylkingin einungis 0,1 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum. Þorvaldur segir ýmislegt öðruvísi nú.
„Smám saman sýnum við fram á að við erum ekki einnota framboð eins og sum önnur reynast vera. Okkar tilvera byggir ekki á því að við viljum endilega inn á þing, heldur á heilsteyptri stefnuskrá sem við tökum alvarlega,“ segir hann. „Við vitum um mikinn fjölda innan VG sem segir að það sé meira sammála okkur heldur en sínum flokki, en kjósi VG frekar af praktískum ástæðum.“
Alþýðufylkingin gengur út frá því að aukinn ójöfnuður og aukin fátækt stafi af markaðshyggju, markaðsvæðingu og kapítalismanum sem slíkum, að sögn Þorvaldar. „Ekki af siðferðislegum ástæðum eða vegna þess að það hafi óvart valist slæmir menn í forystu,“ segir hann. „Við ætlum að taka vopnin af auðvaldinu og segja skilið við hagnaðardrifið fjármálakerfi sem rænir hundruð milljarða út úr hagkerfinu á ári. Við viljum nota þá í þágu fólksins.“
Ellefu flokkar í framboði
Eins og staðan er í dag ætla alls ellefu flokkar að bjóða fram fyrir komandi kosningar. Fyrir utan sitjandi flokka, Alþýðufylkinguna og Flokk fólksins, ætla stjórnmálaflokkarnir Dögun, Íslenska þjóðfylkingin og Viðreisn einnig að bjóða fram í öllum kjördæmum.