Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, myndi fá 52 prósent atkvæða ef haldin yrði önnur umferð í forsetakosningunum þar sem valið stæði á milli tveggja efstu frambjóðendanna. Halla Tómasdóttir, sem fékk næst flest atkvæði, myndi fá 48 prósent atkvæða í slíkri kosningu. Þetta kemur fram í könnun sem MMR hefur gert um málið.
Eldra fólk studdi frekar Guðna Th. en Halla naut sýnilega meiri stuðnings hjá yngra fólki. Þeir sem styðja Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk studdu mun frekar Höllu en þeir sem studdu stjórnarandstöðuflokkanna. Halla naut meiri stuðnings hjá konum en Guðni Th. hjá körlum. Ekki var marktækur munur á stuðningi við þau á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar.
Þegar talið var upp úr kjörkössunum fyrir tæpum tveimur vikum síðan reyndist Guðni Th. hafa fengið 39,1 prósent atkvæða sem dugði honum til að verða næsti forseti Íslands. Hann tekur við embættinu 1. ágúst næstkomandi. Halla Tómasdóttir varð önnur með 27,9 prósent atkvæða.
Könnunin var framkvæmd dagana 27. júní til 4. júlí 2016 og var heildarfjöldi svarenda 924 einstaklingar, 18 ára og eldri. Allar niðurstöður hafa einhver vikmörk sem miða við 1000 svarendur geta verið allt að +/-3,1 prósent.