Andrea Leadsom hefur dregið sig út úr formannskjörinu í Íhaldsflokknum í Bretlandi. Þetta tilkynnti hún fjölmiðlum fyrir utan heimili sitt rétt í þessu. Hún lýsti yfir óskoruðum stuðningi sínum við Theresu May sem næsta formann og forsætisráðherra landsins.
Graham Brady, formaður 1922-nefndarinnar sem hefur umsjón með formannskjörinu, sagði í kjölfarið að Theresa May væri því eini frambjóðandinn sem eftir er. Ekki verður fundinn annan frambjóðandi til að keppa við hana, eins og einhverjir höfðu velt upp. Nú þarf að staðfesta May sem næsta leiðtoga flokksins, og farið verður yfir málið á næstunni, áður en frekari yfirlýsingar eru gefnar. Hann vildi ekki lýsa hana formlega sem formann flokksins, en það er nokkuð augljóst að hún verður það.
Leadsom sagðist í morgun hafa boðið sig fram til formanns með hagsmuni Bretlands í huga, en hún studdi úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.
Leadsom las upp bréf sem hún hafði sent Brady í morgun. Þar kemur fram að Theresa May sé með yfir 60% stuðning meðal þingmanna og hún sé í kjörstöðu til þess að fylgja úrsögninni eftir. Það væri ekki ákjósanleg staða að horfa fram á níu vikna formannsbaráttu í Íhaldsflokknum, heldur væri þörf á sterkum leiðtoga. Sterk ríkisstjórn þurfi að vinna hratt og hlutir þurfi að vera skýrir.
Hún sagði jafnframt að hún væri þakklát fyrir stuðninginn sem hún hefði fengið í forystuna, en engu að síður hefði stuðningur við hana aðeins verið um 25%. Jafnvel þótt hún hefði unnið á endanum gæti formaður með svo lítinn stuðning þingmanna aldrei stýrt sterkri ríkisstjórn.
Samkvæmt breskum fjölmiðlum hefur forsætisráðuneytið gefið til kynna að David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra, muni ekki standa í vegi fyrir því að Theresa May taki við forsætisráðuneytinu eins fljótt og auðið er. Líklegt þykir að hún verði því orðin forsætisráðherra á allra næstu dögum.