Bankaráð Seðlabanka Íslands hefur falið lögfræðingum bankans að kanna tengsl aflandsfélagaviðskipta Finns Ingólfssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Helga S. Guðmundssonar, fyrrverandi formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, við störf þeirra hjá bankanum. Þetta gerði bankaráðið daginn eftir að Kastljós, í samstarfi við Reykjavík Media, greindi frá aflandsfélagaviðskiptum þeirra. RÚV greinir frá.
Í frétt RÚV sagði einnig að bankaráðið hafiu samþykkt einróma að óska eftir umsögn frá Seðlabankanum um hvort mennirnir tveir hefðu upplýst bankann um aflandsviðskipti sín, hvort einhverjar reglur hefðu verið í gildi um slík viðskipti stjórnenda bankans og þá hvort ástæða væri til viðbragða. Niðurstaða liggur ekki fyrir.
Kastljós greindi frá því 25. apríl síðastliðinn að Finnur, sem var varaformaður Framsóknarflokksins, þingmaður viðskiptaráðherra og síðar Seðlabankastjóri, hafi átt ýmis konar persónuleg viðskipti í gegnum aflandsfélög. Þau átti hann ásamt félaga sínum, Helga S. Guðmundssyni, sem Finnur skipaði meðal annars formann bankaráðs Landsbanka Íslands á meðan að hann var ráðherra bankamála. Síðar, árið 2003, var Helgi skipaður í bankaráð Seðlabanka Íslands, þar sem hann sat til ársins 2008. Helgi, sem nú er látinn, var meðal annars formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands frá árinu 2006 og fram á árið 2007. Hann var auk þess áhrifamaður í S-hópnum svokallaða, sem keypti hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum í bankaeinkavæðingunni árið 2002. VÍS, sem Finnur stýrði á þeim tíma, var einnig hluti af S-hópnum.
Í gögnum Mossack Fonseca kom meðal annars fram að Finnur og Helgi hafi eignast félag í Panama í byrjun febrúar 2007, á meðan að Helgi var enn formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Félagið hét Adair SA. Í Kastljósi kom fram að tilgangur félagsins væri að kaupa og eiga hlutabréf í Landsbankanum, sem Landsbankinn hafði lánað fyrir. Finnur sagði í skriflegu svari til Kastljóss að tilgangur félagsins hefði verið fjárfestingar. Það hefði tapað miklu og því hefðu aldrei orðið til tekjur í félaginu. Ef þær hefðu orðið þá hefði félagið greitt skatt í Panama en eigendur þess fjármagnstekjuskatt á Íslandi ef þeir hefðu fengið eitthvað út úr því.
Kastljós greindi einnig frá tilurð félagsins Lozanne Inc. í Panama, sem skráð var í eigu Finns. Engar frekari upplýsingar fundust um félagið og Finnur kannaðist ekki við það þegar leitað var upplýsinga hjá honum um það.