Neðri deild breska þingsins mun ræða tillögu um að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandsaðild Bretlands þann 4. september næstkomandi.
Ástæðan er ekki vilji stjórnvalda til þess að halda aðra atkvæðagreiðslu, heldur sú að undirskriftasöfnun þar um náði yfir 100 þúsund undirskriftum, sem er lágmarkið til þess að breska þingið verði að taka til greina að hafa umræðu um mál. Sögulega eru undirskriftasafnanir sem ná 100 þúsund undirskriftum langoftast teknar til umræðu. Undirskriftasöfnunin um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu fékk yfir fjórar milljónir undirskrifta, sem er met.
Undirskriftasöfnunin var sett af stað af stuðningsmanni þess að Bretland yfirgæfi ESB mánuði áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram þann 23. júní. Þar var kallað eftir því að ríkisstjórnin myndi ógilda úrslit atkvæðagreiðslunnar ef kosningaþátttakan væri undir 75% eða ef önnur hvor afstaðan, Leave eða Remain, nýti minna en 60% stuðnings. Maðurinn sem setti söfnunina af stað hefur afneitað henni síðan þá og sagði að búið væri að ræna söfnuninni.
Umræða í þinginu þýðir þó ekkert formlega, þar sem það eru stjórnvöld sem taka ákvörðun um þessi mál. Þau hafa nú þegar útilokað að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin. Utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að 33 milljónir manna hefðu nú þegar sagt sína skoðun og ákvörðun þeirra beri að virða. „Nú þurfum við að undirbúa okkur fyrir ferlið sem fylgir því að yfirgefa ESB.“
Yfir þúsund lögmenn hafa skrifað undir bréf til David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra, þar sem þeir segja að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi ekki verið bindandi á nokkurn lagalegan hátt, heldur aðeins ráðgefandi. Stjórnvöld ættu því að láta gera sjálfstæða rannsókn á kostum og göllum þess að draga sig út úr Evrópusambandinu áður en haldið er áfram með áætlanir um að yfirgefa það.
Skoðanakönnun sem gerð var fyrir blaðið Independent sýndi að fjórir af hverjum tíu Bretum vildu sjá aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.