Theresa May, nýr forsætisráðherra Bretlands, hefur gert Boris Johnson að utanríkisráðherra í stjórn sinni. Johnson mun því gegna veigamiklu hlutverki í útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Boris Johnson er þingmaður og fyrrverandi borgarstjóri í London, Hann var, ásamt Michael Gove, andlit Leave-baráttunar sem barðist fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis í lok síðasta mánaðar. Eftir að Bretar kusu með útgöngu áttu margir von á því að Johnson myndi sækjast eftir því að verða næsti formaður Íhaldsflokksins og þar af leiðandi næsti forsætisráðherra Bretlands. Hann tilkynnti hins vegar þann 30. júní að hann myndi ekki sækjast eftir formennsku í breska Íhaldsflokknum, og þar með ekki forsætisráðuneytinu. Ákvörðun Johnson kom verulega á óvart, enda var hann talinn einn líklegasti frambjóðandinn til þess að freista þess að taka við af David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra.
May, sem tók við völdum í dag, hefur einnig gert David Davis að sérstökum Brexit-ráðherra og skipaði Phillip Hammond í embætti fjármálaráðherra. George Osborne, fráfarandi fjármálaráðherra og einn nánasti samstarfsmaður Cameron, var ekki boðið sæti í nýju ríkisstjórninni. Amber Rudd hefur verið skipuð í embætti innanríkisráðherra og Michael Fallon í embætti varnarmálaráðherra.