Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu braut meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með því að víkja lögreglumanni úr starfi tímabundið í vetur. Henni var ekki heimilt að víkja honum frá störfum. RÚV greindi frá þessu í dag og vísar í úrskurð innanríkisráðuneytisins.
Innanríkisráðuneytið hefur neitað að láta úrskurðinn af hendi til Kjarnans þar sem hann snertir persónubundin mál sem séu einkamálefni einstaklinga.
Sigríður Björk vék fyrrverandi lögreglumanni í fíkniefnadeild tímabundið frá störfum í janúar eftir að embætti héraðssaksóknara hóf rannsókn á meintum brotum hans í starfi. Hann var sakaður um óeðlileg samskipti við menn sem höfðu verið til rannsóknar hjá deildinni, en áður hafði hann verið færður tvívegis til í starfi vegna meintra brota. Héraðssaksóknari hreinsaði lögreglumanninn af öllum ásökunum og honum var boðið að snúa aftur til starfa í tæknideild lögreglunnar.
Ákvörðunin um að víkja honum úr starfi var kærð til innanríkisráðuneytisins. Samkvæmt RÚV gagnrýnir ráðuneytið að ákvörðun Sigríðar hafi fyrst og fremst byggt á frásögnum og orðrómi en ekki gögnum. Hún hafi ekki gætt meðalhófssjónarmiða, samkvæmt 12. grein stjórnsýslulaga. Ákvörðun um að leysa fólk úr embætti tímabundið sé verulega íþyngjandi fyrir þann sem hún beinist að og vanda eigi til undirbúnings og meðferðar mála áður en slík ákvörðun sé tekin.
Braut persónuverndarlög
Þegar Sigríður Björk var lögreglustjóri á Suðurnesjum braut hún lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, greinargerð um hælisleitandann Tony Omos. Upplýsingarnar voru í forgrunni lekamálsins svokallaða, en Gísli Freyr var svo dæmdur í fangelsi fyrir að leka upplýsingum um Omos í fjölmiðla.
Miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á skýrsludrögum með persónuupplýsingum um Tony Omos, Evelyn Glory Joseph og fleiri einstaklinga til innanríkisráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013, sem og beiðni ráðuneytisins þar að lútandi, studdist ekki við viðhlítandi heimild, að því er fram kom í úrskurði Persónuverndar. Sigríður Björk neitaði því hins vegar að hafa brotið lög.