Hópur bandarískra repúblikana reynir nú í örvæntingu að koma í veg fyrir að Donald Trump verði frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum í nóvember.
Í dag og á morgun verða haldnir fundir í undirbúningsnefndinni sem ákveður starfsreglur flokksþings repúblikana sem hefst á mánudag. Þótt fátt virðist geta komið í veg fyrir að Donald Trump verði frambjóðandi flokksins í baráttunni um Hvíta húsið eru margir repúblikanar mjög ósáttir við framboð hans. Þeir mega vart til þess hugsa að Trump geti hugsanlega orðið næsti forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump hefur, í forkosningum flokksins, tryggt sér stuðning 2472 kjörmanna á flokksþinginu, samkvæmt núgildandi reglum. Það eru þessar reglur sem örvæntingarfullir fulltrúar í undirbúningsnefnd flokksþingsins vilja breyta á þann veg að kjörmennirnir verði ekki bundnir af niðurstöðum forkosninganna. Slík breyting hefði í för með sér að fulltrúar á flokksþinginu gætu valið annan einstakling sem frambjóðanda flokksins í forsetakosningunum í haust.
Þótt þetta hljómi kannski ekki beinlínis lýðræðislega og slík atburðarás þyki ef til vill eiga betur heima í sjónvarpsþáttum á borð við „House of Cards“ (Spilaborg) er rétt að hafa í huga að Repúblikanaflokkurinn er í raun félag. Það þýðir að félagsmenn geta bæði sett, og breytt reglum félagsins. Þess vegna væri það ekki ólöglegt þótt reglunum um val forsetaframbjóðanda yrði breytt á flokksþinginu.
Þeir sem berjast gegn framboði Donald Trump hafa með sér samtök „Free the Delegates“ og einn félagi í samtökunum höfðaði mál til að láta á það reyna hvort hann væri bundinn af úrslitum forkosninganna. Niðurstaða dómarans var að þessi félagi, sem er í hópi kjörmanna, væri ekki bundinn af forkosningunum þegar að því kemur að flokksþingið útnefni forsetaframbjóðanda.
Í áðurnefndri undirbúningsnefnd sitja 112 fulltrúar. Ekki er talið líklegt að meirihluti nefndarmanna styðji breytingar á starfsreglum flokksþingsins. En, ef fjórðungur nefndarmanna, tuttugu og átta, styðja slíkar breytingar hefði það í för með sér að allir fulltrúar á flokksþinginu yrðu að kjósa um það hvort reglunum skuli breytt. Ef slík breyting yrði samþykkt á flokksþinginu gætu fulltrúarnir kosið annan einstakling sem frambjóðanda flokksins í forsetakosningunum.
Stuðningsmenn Donald Trump reyna hvað þeir geta að sjá til þess að þessar hugmyndir um breytingar á kosningareglunum verði ekki að veruleika. Þeir segja að ef fulltrúar á flokksþinginu snúi baki við Donald Trump myndi það kljúfa Repúblikanaflokkinn. Bandarískir fjölmiðlar segja að ef svo færi að Donald Trump yrði ekki frambjóðandi repúblikana jafngilti það því að kjarnorkusprengju hefði verið varpað á flokkinn, sem myndi sundrast.