Fjárfestirinn virti, Warren Buffett, sem er 85 ára gamall, hefur gefið frá sér hlutafé í félaginu Berkshire Hathaway, að virði 2,86 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 350 milljörðum króna. Um þetta var tilkynnt í gær.
Hlutabréfin tilheyra nú góðgerðarsjóði Bill and & Melinda Gates Foundation og fjórum góðgerðarsjóðum sem fjölskylda Buffetts stýrir.
Frá því árið 2006, þegar Buffett tilkynnti um að hann ætlaði sér að gefa meira en 90 prósent af eignum sínum til góðgerðarmála, hefur hann gefið 24,6 milljarða Bandaríkjadala frá sér, eða sem nemur ríflega þrjú þúsund milljörðum króna.
Samtals gaf Buffett frá sér um 19,6 milljónir hluta í Berkshire Hathaway, sem allt voru svonefnd B-hlutabréf, sem ekki fylgir atkvæðaréttur á hluthafafundum. Stærstur hluti bréfanna fór til The Gates Foundation, sem er sjóður sem einblínir á styrki til menntunar- og heilbrigðismála. Hann fékk 14,6 milljónir hluta í fyrrnefndu félagi.
Óhætt er að segja að Buffett hafi verið duglegur við að styðja við góðgerðarstarf, frá því hann tilkynnti um ákvörðun sína árið 2006. Hann á ennþá um 18 prósent í Berkshire Hathaway, en hefur skipulega gefið frá sér nærri fjórtán prósent hlut í félaginu á undanförnum tíu árum, en heildareign hans í félaginu var rúmlega 32 prósent fyrir tíu árum.
Áður en tilkynnt var um gjöfina frá Buffett, var hann þriðji á lista Forbes yfir ríkustu menn heims með heildareignir upp á ríflega 68 milljarða Bandaríkjadala. Bill Gates var efstur á listanum með 77 milljarða Bandaríkjadala og spænski fasteignafjárfestirinn Amacio Ortega var annar með heildareignir upp á 74 milljarða Bandaríkjadala.
Buffett hefur stýrt Berkshire Hathaway frá því árið 1965 með einstökum árangri. Það á meðal annars stóra eignarhluti í Coca Cola, IBM, Wells Fargo, Geico tryggingarfélaginu, og BNSF railroad.