Innanríkisráðuneytið hefur skipað Ólaf K. Ólafsson, sýslumann á Vesturlandi, til að fara með rannsókn á tveimur kærum gegn Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, aðallögfræðingi á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir innanríkisráðuneytið við Kjarnann.
Tveir menn, sem voru til rannsóknar í LÖKE-málinu svokallaða, kærðu Öldu Hrönn fyrir rangar sakargiftir og meint brot í starfi. Annar mannanna, Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður, var handtekinn og ákærður fyrir að fletta upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglu í heimildarleysi og deila persónuupplýsingum þaðan með vinum sínum. Stærsti ákæruliðurinn var síðar felldur niður, en Gunnar var í Hæstarétti dæmdur fyrir að deila upplýsingum með þriðja aðila, en honum var ekki gerð refsing. Það voru upplýsingar um 13 ára dreng sem hann hafði haft afskipti af í starfi.
Bæði embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara lýstu sig vanhæf til meðferðar kæranna á hendur Öldu. Ráðherra þurfti því að setja annan löghæfan mann til að fara með málið, en það varð ljóst í apríl síðastliðnum. Nú hefur verið ákveðið að sá maður verði Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður á Vesturlandi.
Ólafur er sem fyrr segir sýslumaður á Vesturlandi. Hann og yfirmaður og náinn samstarfsmaður Öldu Hrannar, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, þekkjast og hafa unnið saman. Þau sátu til að mynda saman í starfshópi sem endurskoðaði lögreglunám í landinu og þau sátu í mörg ár saman í stjórn Lögreglustjórafélags Íslands. Ólafur var forveri Sigríðar Bjarkar í lögreglustjórastarfi á Suðurnesjum, en hann var settur í það embætti tímabundið árið 2008 áður en Sigríður Björk var ráðin þangað.