Íslensku greiðslukortafyrirtækin Borgun og Valitor hafa fengið að minnsta kosti ellefu milljarða króna greidda vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe. Kaupin kláruðust um síðustu mánaðarmót og komu greiðslurnar til íslensku fyrirtækjanna í kjölfarið í formi reiðufjár. Greiðslurnar voru aðeins hærri en Borgun og Valitor höfðu áður gefið út að þær yrðu en í staðin var fallið frá afkomutengdri greiðslu sem taka átti mið af afkomu Visa Europe næstu fjögur árin. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar er rætt við Hauk Oddsson, forstjóra Borgunar, sem staðfestir að greiðslan hafi borist og að sá hluti hennar sem hafi verið í reiðufé strax hafi verið hærri en þeir 33,9 milljónir evra, um 4,6 milljarðar króna, sem áætlað hafði verið að hún yrði. Hann gat ekki sagt hversu miklu hærri hún hafi verið en staðfesti einnig að fallið hefði verið frá afkomutengdu greiðslunni. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, svaraði ekki fyrirspurn DV um greiðslu til fyrirtækisins vegna sölu Visa Europe en í febrúar síðastliðnum upplýsti Valitor að hlutur fyrirtækisins vegna sölu Visa Europe yrði 9,1 milljarður króna. Þar af yrðu 6,8 milljarðar greiddir í reiðufé og 2,3 milljaðrar króna myndu koma síðar. Því er ljóst að sú greiðsla sem Borgun og Valitor fengu um síðustu mánaðarmót var að minnsta kosti upp á rúma ellefu milljarða króna og líkast til hærri.
Ríkið á mikla hagsmuni undir í greiðslukortafyrirtækjunum tveimur. Íslandsbanki er stærsti eigandi Borgunar með rúmlega 63 prósent hlut og hann er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Landsbankinn, sem er sömuleiðis ríkisbanki, gerði samkomulag um hlutdeild í söluhagnaði Valitor vegna sölu Visa Europe þegar bankinn seldi sinn hlut í fyrirtækinu til Arion banka en gerði ekki slíkt samkomulag vegna sölu á hlut sínum í Borgun. Þá á ríkið ríka hagsmuni í Arion banka, eiganda Valitor, þar sem hluti söluandvirðis hans rennur til ríkisins vegna þess samkomulags sem gert var við kröfuhafa Kaupþings við uppgjör slitabúa föllnu bankanna í lok síðasta árs. Einn fjárfestahópur hagnast líka mjög vel, hópur sem fékk að kaupa hlut Landsbankans í Borgun á mjög lágu verði í lokuðu söluferli síðla árs 2014.
Borgun selt bakvið luktar dyr á mjög lágu verði
Borgunarmálið svokallaða er eitt stærsta fréttamál undanfarinna ára á Íslandi. Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig. Á meðal þeirra var föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, Einar Sveinsson. Bjarni var spurður út í þetta í þættinum Sprengisandi í byrjun mars. Þar sagði hann engan gafa geta sýnt fram á að hann hafi komið að Borgunarmálinu með nokkrum hætti. Þótt „einhver frændi“ hans hafi hagnast þá geti hann ekki látið það trufla sig. Landsbankinn hafi alfarið borið ábyrgð á málinu.
Í janúar var greint frá því að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Visa Inc. átti að greiða um þrjú þúsund milljarða króna fyrir Visa Europe og það fé skiptast á milli þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem eiga rétt á hlutdeild í Visa Europe. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunar á Þorláksmessu 2015.Borgun hefur greitt eigendum sínum þrjá milljarða í arð fyrir rekstrarárin 2014 og 2015. Á aðalfundi Borgun fyrr á þessu ári var ákveðið að greiða 2,2 milljarða í arð til hluthafa, vegna ársins 2015. Áður en kom til arðgreiðslunnar í fyrra, hafði ekki verið greiddur arður úr félaginu frá árinu 2007.
Bankaráðsmenn hættu en bankastjórinn ekki
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eigendavald ríkisins í fjármálafyrirtækjum, birti í mars ítarlegt bréf sem það sendi bankaráði Landsbankans vegna Borgunarmálsins. Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hefur teflt fram sér til varnar í málinu. Þar var enn fremur sagt að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Borgunarmálið leiddi til þess að fimm af sjö bankaráðsmönnum í Landsbankanum gáfu ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi bankans, sem haldinn var 14. apríl. Á meðal þeirra var Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, neitaði hins vegar hætta störfum, en í yfirlýsingu frá bankaráðsmönnunum fimm var fullyrt að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á afsögn Steinþórs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.