Landsbankinn hefur enn ekki höfðað mál vegna sölunnar á eignarhlut bankans í Borgun hf. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, greindi frá því í Kastljósi um miðjan febrúar að Landsbankinn væri að kanna hvort kæra ætti stjórnendur Borgunar vegna málsins. Bankinn sendi síðan frá sér tilkynningu 16. mars um að hann hefði falið lögmönnum sínum að undirbúa málsókn „til þess að endurheimta þá fjármuni sem bankinn fór á mis við í viðskiptunum.“ Samkvæmt upplýsingum frá bankanum á þeim tíma hafði athugun innan hans gefið til kynna að tilefni sé til þess að undirbúa málsókn og vinna við undirbúning hennar staðið yfir um nokkurt skeið.
Kjarninn spurðist fyrir um hver staðan á umræddri málsókn væri og fékk þær upplýsingar hjá Landsbankanum að ekkert nýtt hefði gerst í málinu.
Borgun búið að fá greitt vegna sölu Visa Europe
Eins og Kjarninn hefur ítrekað fjallað um var 31,2 prósenta hlutur í Borgun seldur bak við luktar dyr til valinna fjárfesta, meðal annars stjórnenda Borgunar, undir lok ársins 2014. Hluturinn var seldur á 2,2 milljarða króna og heildarvirði félagsins var metið á um sjö milljarða. Í febrúar var virði fyrirtækisins talið allt að 26 milljarðar króna. Eftir á hefur komið í ljós að Borgun ætti rétt til greiðslna vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa Europe ef hann yrði virkjaður. Landsbankinn hefur sagt að hann hafi ekki verið upplýstur um þennan valrétt. Því hefur Borgun hins vegar vísað á bug.
Í gær greindi DV frá því að greiðslur vegna valréttarins hefðu borist íslensku greiðslukortafyrirtækjunum Borgun og Valitor um síðustu mánaðarmót. Þar kom fram að greiðslurnar, sem fóru fram í reiðufé, hefðu verið hærri en upphafleg stóð til þar sem fallið hafði verið frá afkomutengdri greiðslu sem taka átti mið af afkomu Visa Europe næstu fjögur árin. Upphaflega átti reiðufés-greiðslan til Borgunar að vera 4,6 milljarðar króna, en nú er ljóst að hún var hærri.
Stjórnendur Borgunar hafa ætið vísað ásökunum á hendur sér á bug og í febrúar sögðu þeir að „alvarlegar ásakanir bankastjórans um meint lögbrot annarra í þessu máli má sjálfsagt skoða í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem Landsbankinn er kominn í. Stjórnendur Borgunar frábiðja sér með öllu að vera gerðir að blórabögglum í þessu máli.“
Borgun hefur greitt eigendum sínum þrjá milljarða í arð fyrir rekstrarárin 2014 og 2015. Á aðalfundi Borgun fyrr á þessu ári var ákveðið að greiða 2,2 milljarða í arð til hluthafa, vegna ársins 2015. Áður en kom til arðgreiðslunnar í fyrra, hafði ekki verið greiddur arður úr félaginu frá árinu 2007.
Höfnuðu rökum Landsbankans
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eigendavald ríkisins í fjármálafyrirtækjum, birti í mars ítarlegt bréf sem það sendi bankaráði Landsbankans vegna Borgunarmálsins. Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hefur teflt fram sér til varnar í málinu. Þar var enn fremur sagt að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Borgunarmálið leiddi til þess að fimm af sjö bankaráðsmönnum í Landsbankanum gáfu ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi bankans, sem haldinn var 14. apríl. Á meðal þeirra var Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, neitaði hins vegar hætta störfum, en í yfirlýsingu frá bankaráðsmönnunum fimm var fullyrt að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á afsögn Steinþórs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.