Meðalhiti í júní í ár var sá hæsti sem mælst hefur síðan mælingar hófust árið 1880. Júní var jafnframt fjórtándi mánuðurinn í röð sem bætir hitamet í skrám bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA) og bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar. Frá þessu er meðal annars greint á vef breska dagblaðsins The Guardian.
Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað stöðugt undanfarna mánuði. Mælingarnar taka til meðalhitastigs í bæði andrúmslofti og í höfum enda eru þetta samtvinnuð fyrirbæri. Íslendingar þekkja það á eigin skinni því ef það væri ekki fyrir hlýja hafstrauma úr suðurhöfum sem berast að ströndum Íslands þá væri vart byggilegt á landinu.
Meðalhiti í júnímánuði hefur mælst yfir meðalhita 20. aldarinnar í fjörutíu ár, eða síðan 1976. Röð þessara fjórtán metmánaða má rekja til veðurfyrirbærisins El Niño á Kyrrahafi sem var feykiöflugt á fyrri hluta ársins 2015. Með El Niño berst hlýtt vatn um allt Kyrrahafið sem svo myndar oft ofsaveður.
Nú hafa áhrif El Niño árið 2015 minnkað þannig að augljóst er að um hnattræna hlýnun af mannavöldum er að ræða, að sögn Gavin Schmidt, sérfræðings hjá NASA. Nokkrar kenningar eru hins vegar uppi um hvers vegna hvert hitametið fellur á fætur öðru. Ein þeirra er að óvenju mikil hlýindi yfir norðurskautinu í vetur hafi ýtt undir og stuðlað að metunum.
Á loftslagsráðstefnunni í París þar sem ríki heims komu sér saman um sameiginleg markmið í loftslagsmálum, var ákveðið að stefna að því að meðalhitastig jarðar myndi ekki aukast um meira en tvær gráður miðað við meðalhita fyrir iðnbyltinguna. Samkvæmt spám sem gerðar hafa verið þá stefnir í að þetta takmark muni ekki nást, jafnvel þó ríki heims festi markmið sín sem þau lögðu fyrir ráðstefnuna í lög.
Markmiðin munu þó draga gríðarlega úr hraða hlýnunarinnar og veita jarðarbúum framtíðarinnar betri tækifæri til að berjast gegn hnattrænni hlýnun.