Hagkerfi Bretlands hefur ekki minnkað hraðar síðan í efnahagshruninu árið 2008 og 2009 og nú. Samkvæmt haggreiningu breska fyrirtækisins Markit hafa bæði þjónustu- og framleiðslugeirar orðið fyrir barðinu á ákvörðun Breta um að segja sig úr Evrópusambandinu.
Philip Hammond, fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Theresu May, segir í samtali við Sky News að Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslan hafi „dældað traust á breskum fyrirtækjum“. Nú sé Bretland á óvissutímum. „Verkefnið okkar er að endurbyggja eins mikið traust og við getum, eins hratt og við getum. Hammond segir að til þess að endurvekja traustið verði Bretland að ná skjótu samkomulagi við Evrópusambandið og Kína. Ráðherran er þessa stundina staddur í Peking þar sem hann fundar með kínverskum ráðamönnum.
Haft er eftir Chris Williamsson, hagfræðingi Markit, í breskum fjölmiðlum í dag að júlí hafi verið einstaklega dramatískur fyrir efnahagslífið; atvinnurekstur hafi ekki lyppast jafn hratt síðan fjármálakreppan náði hæðum sínum á fyrri hluta ársins 2009.
Þetta er fyrsta úttekt Markit síðan þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin í lok júní, en þaðan berast hagtölur og greiningar á meira en 1.200 breskum fyrirtækjum í hverjum mánuði. Í tístinu hér að neðan frá Faisal Islam, fréttamanni Sky News, má sjá línuritið sem sýnir hagsveiflur síðustu ára í Bretlandi.