Isavia fullyrðir að öryggi við flugumferðarstjórn á Íslandi sé ekki ógnað. Það segir fyrirtækið að tilefni yfirlýsingar Alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra, IFATCA, um miklar áhyggjur af flugöryggi hér á landi vegna manneklu í stéttinni. Eins og kunnugt er hafa flugumferðarstjórar verið í mikilli kjarabaráttu undanfarið sem hefur orðið til töluverðrar skerðingar á samgöngum.
Minni þjónusta vegna undirmönnunar
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í skriflegu svari til Kjarnans að þegar erfitt hafi reynst að fullmanna vaktir í flugturnum og flugstjórnarmiðstöð hafi viðbragðsáætlun vegna minni mönnunar verið sett í gang.
„Viðbragðsáætlun vegna minni mönnunar gengur þannig fyrir sig að ef færri eru á vaktinni þá er álag minnkað með því að minnka þjónustu,“ segir Guðni. „Það hefur ekki farið framhjá landsmönnum að þjónusta hefur oft verið minnkuð töluvert á flugvöllum landsins og það hefur ekki heldur farið framhjá flugfélögum sem fljúga um íslenska flugstjórnarsvæðið og þurft hafa að taka á sig sveig framhjá íslenska flugstjórnarsvæðinu með tilheyrandi aukinni eldsneytisnotkun, til þess að hægt væri að minnka álag um íslenska flugstjórnarsvæðið.“
Alvarlegt að kjarabarátta tali niður öryggi
Hann segir viðbragðsáætlun Isavia almenna og í samræmi við alþjóðalög og reglugerðir og hafi verið samþykkt af eftirlitsstofnunum.
„IFATCA eru samtök sem Félag íslenskra flugumferðarstjóra er aðili að og eru samtökin með þessu að taka þátt í kjarabaráttu flugumferðarstjóra. Það er alvarlegt mál þegar kjarabarátta fer á það stig að tala niður öryggi, sem er það mikilvægasta þegar kemur að flugi,“ segir Guðni.
Vita af manneklu
Isavia viti þó af þeirri manneklu sem sé í röðum flugumferðarstjóra. Tvær meginorsakir séu fyrir henni, annars vegar hafi aukning á flugi verið gríðarlega hröð og hraðari en nokkrar spár gerðu ráð fyrir.
„Hins vegar er það vegna þess að þó nokkuð margir úr stórum hópi nema í flugumferðarstjórn náðu ekki að klára námið og datt því stór hluti eins árgangs út. Nú eru yfir 30 nemar í þjálfun og munu þeir sem klára þá þjálfun bætast í hóp flugumferðarstjóra á næstu 12 til 18,“ segir hann. „Vegna yfirvinnubanns sem var hluti af verkfallsaðgerðum flugumferðarstjóra hefur námið þó tafist eitthvað, til dæmis hefðu nokkrir nemanna nú þegar verið búnir að hefja störf sem flugumferðarstjórar ef bannið hefði ekki verið sett á.“