Matsfyrirtækið Standard&Poor’s (S&P) hækkaði lánshæfiseinkun Íbúðalánasjóðs (ÍLS) við lokun markaða í Evrópu í gær. Ný einkunn sjóðsins er BB, jafnvel þó S&P hafi gefið Íbúðalánasjóði langstímaeinkunina BB- í janúar. Samkvæmt útskýringum S&P hefur rekstur sjóðsins gengið vonum framar og þess vegna er einkuninn hækkuð.
„Uppfærsla einkunarinnar endurspeglar auknar væntingar til afkomu og eignafærslu ÍLS, sem á sér rætur í bættum efnahagsaðstæðum á Íslandi. Þessar bættu aðstæður hafa haft jákvæðari áhrif á sjóðinn en við gerðum ráð fyrir,“ segir í rökstuðningi greinenda Standad&Poor’s.
Hærri einkunn fyrir Íbúðalánasjóð helgast einnig af þeirri staðreynd að greinendurnir telja „mjög líklegt“ að íslenska ríkið aðstoði sjóðinn ef upp koma erfiðleikar í rekstri sjóðsins. Ríkið hefur ekki þurft að leggja ÍLS til fé síðan árið 2014.
„Þetta eru góð tíðindi. Ákvörðun S&P er hvort tveggja viðurkenning á jákvæðu efnahagsumhverfi á Íslandi og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til til að bæta stöðu Íbúðalánasjóðs,“ er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra sjóðsins, í fréttatilkynningu.
Afkoma Íbúðalánasjóðs var um margt jákvæð á síðasta ári, eins og Kjarninn fjallaði um í mars. Sjóðurinn skilaði 1,8 milljarða króna rekstrarhagnaði á árinu 2015, og er það annað árið í röð sem hann skilaði hagnaði eftir að hafa grætt 3,2 milljarða króna árið 2014. Árin þar á undan höfðu hins vegar verið afar slæm. Alls tapaði sjóðurinn tæpum 58 milljörðum króna frá árslokum 2008 og út árið 2013. Ríkissjóður þurfti að leggja honum til 53,5 milljarða króna á árinu 2009 til að halda sjóðnum gagnandi.
Á árinu 2014 var þorri þess hagnaðar sem Íbúðalánasjóður sýndi vegna breytinga á virðisrýrnun útlána. Þ.e. innheimtanleiki lána hans jókst um 2,5 milljarða króna. Sama var upp á teningnum í fyrra. Virðisrýrnun útlána lækkaði um 4,4 milljarða króna og útskýrir því vel rúmlega allan hagnað Íbúðalánasjóðs á síðasta ári líka. Í tilkynningu vegna ársreiknings sjóðsins segir: „Breyting virðisrýrnunar tengist umtalsverðri lækkun vanskila heimila og sterkari tryggingarstöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði.“
Útlán sjóðsins héldu hins vegar árfram að lækka á síðasta ári líkt og árin á undan. Þau lækkuðu um tæpa 80 milljarða króna í fyrra. Þar af voru, líkt og áður sagði, 33,8 milljarðar króna vegna leiðréttingarinnar. Íbúðalánasjóður er samt sem áður langstærsti íbúðalánaveitandi á landinu, þrátt fyrir litla útlánaveitingu og miklar uppgreiðslur árum saman. Markaðshlutdeild hans, samkvæmt útreikningum Kjarnans, er rúmlega 40 prósent á íbúðalánum til einstaklinga.
Framtíðarhlutverkið í óvissu
Íbúðalánasjóður náði líka þeim árangri, í fyrsta sinn frá árinu 2007, að eiginfjárhlutfall hans er yfir lögbundnu lágmarki. Það lágmark er 5,0 prósent og eiginfjárhlutfall fé sjóðsins um síðustu áramót var 5,5 prósent.
Framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs er þó enn óljóst. Í ársreikningi sjóðsins segir að vaxtamunur sjóðsins, sem er einungis 0,28 prósent dugi ekki fyrir virðisrýrnun sambærilegri þeirri sem átti sér stað við efnahagshrunið. Slíkt hefði legið fyrir lengi. „Nokkurar óvissu gætir um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs. Fyrir vikið hefur stefnumótandi ákvörðunartaka í nánasta umhverfi sjóðsins verið sett á bið en slíkt hefur neikvæð áhrif á rekstur sjóðsins,“ segir í árskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2015.
„Upplýsingar um mikilvæg atriði, þar sem óvissa í mati hefur mest áhrif á skráðar fjárhæðir í reikningsskilunum, er að finna í eftirfarandi skýringum: Lítil útlánaaukning og auknar uppgreiðslur viðskiptavina hafa neikvæð áhrif á vaxtamun sjóðsins þar sem sjóðnum er óheimilt að greiða skuldir sínar fyrir gjalddaga þeirra. Því er stærra hlutfall fjármuna í ávöxtun utan hefðbundinna veðlána til heimila og leigufélaga. Því getur dregið út jöfnuði milli eigna og skulda sjóðsins.“