Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann njóti mikils stuðnings flokksfélaga sinna og fjölda annars fólks sem ekki tekur þátt í stjórnmálastarfi. Það séu staðreyndir sem liggi fyrir. Hann segir enga ástæðu til þess að kjósa í haust en boðar fulla þáttöku sína í stjórnmálabaráttunni. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigmundur Davíð sendi á alla flokksmenn Framsóknarflokksins. Eyjan birtir bréfið í heild sinni.
Þar segir að Sigmundur Davíð viti að endurkoma hans muni vekja viðbrögð. „Látið það ekki slá ykkur út af laginu. Viðbrögð, jafnvel ofsafengin viðbrögð gegn mér og okkur eru nú sem fyrr til marks um að andstæðingar telja að sér standi ógn af okkur.“
Sér ekki ástæðu til þess að kjósa í haust
Sigmundur Davíð fjallar um mikinn árangur ríkisstjórnarinnar í bréfinu og segir að hann hafi dregið sig til hlés úr pólitískum slag um tíma til að gefa henni svigrúm til að vinna að mikilvægum og ókláruðum verkefnum. Í bréfinu segir hann að með vinnu síðustu þriggja ára hafi ríkisstjórnin uppfyllt flest fyrirheit sín og að landið hafi aldrei verið jafnvel í stakk búið til að sækja fram og nú. Þá sókn vill hann að Framsókn leiði.
Á öðrum stað segir: „Einhverra hluta vegna hefur hluti samstarfsmanna okkar í Sjálfstæðisflokknum verið áhugasamur um að flýta alþingiskosningum. Við höfum ætíð haldið því til haga að ef sú ætti að vera raunin þyrfti fyrst að klára þau verkefni sem fyrirheit hafa verið gefin um að leysa á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórnin sem ekki nýtir tímann sem henni er veittur getur ekki gengið út frá því sem vísu að hún fái tækifæri til að klára verkefnin síðar.[...]Eins og sakir standa eru litlar líkur á að nokkur flokkur nái meira en 30 prósenta fylgi í næstu kosningum og jafnvel slíkt fylgi veitir ekki vissu fyrir aðild að næstu ríkisstjórn. Aðrir munu ekki klára vinnu okkar í verðtryggingarmálinu, þeir munu ekki koma á heilbrigðu fjármálakerfi eins og nú er loks tækifæri til og þeir munu ekki gera það sem þarf til að efla byggð á landinu öllu. Tíminn til að standa við loforðin sem við höfum gefið er því núna.“
Aðrir forystumenn hafa boðað kosningar
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefur fullyrt opinberlega að kosið verði í haust. Það hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, einnig gert og flestir stjórnmálaflokkar landsins eru farnir að undirbúa prófkjör. Kjördæmasamband Framsóknarfélaganna í Reykjavík hefur auk þess auglýst eftir framboðum á lista flokksins í komandi alþingiskosningum og stefnir á að röðun á lista fari fram 27. ágúst næstkomandi.
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í apríl síðastliðnum í kjölfar Wintris-málsins svokallaða. Kastljós og Reykjavik Media opinberuðu þá að hann hefði átt aflandsfélag sem skráð var á Bresku Jómfrúareyjunum og átti m.a. kröfur á slitabú föllnu bankanna. Hann fór í kjölfarið í frí en snéri aftur til starfa sem þingmaður á lokaspretti þingsins. Nú ætlar hann að hefja full störf að nýju.
Í könnun Félagsvísindastofnunar sem framkvæmd var skömmu eftur að frægur þáttur Kastljóss og samstarfsaðila var sýndur, þar sem Sigmundur Davíð gekk út úr viðtali við sænskan fjölmiðlamann, kom fram að 78 prósent aðspurðra sögðu að dregið hefði úr trausti þeirra á Sigmund Davíð í kjölfar þáttarins.
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar mælist fylgi Framsóknarflokksins 9,1 prósent. Hann fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum 2013.