Vegna aukins framboðs á flugförum til Bretlands til og frá Íslandi hafa fargjöld lækkað um nærri helming á aðeins einu ári. Á öðrum ársfjórðungi ársins 2016 var meðalfargjald var 49 prósent lægra en á sama tíma í fyrra. Lang oftast er flogið til London frá Keflavík því nærri því fimmta hver þota sem tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli flýgur til London.
Á vefnum Túristi.is má lesa um að samkvæmt tölum frá flugbókunarsíðunni Kayak hafi flugfar til 20 vinsælustu áfangastaðanna frá London almennt lækkað þó nokkuð mikið. Reykjavík var fimmti vinsælasti áfangastaður ferðalanga frá London á öðrum ársfjórðungi. Ísland hafði þá hoppað um 39 sæti á listanum því í sama tíma í fyrra var Reykjavík í 44. sæti listans hjá Kayak.
Viðskiptavinir Kayak keyptu flestir flug til New York frá London en meðalfarmiðaverð á þeirri leið hefur aðeins lækkað um níu prósent. Mest hefur verðið lækkað á flugi frá Bretlandi til Ibiza-eyjunnar spænsku. Verðbreytingin á milli ára var 58 prósent sé annar ársfjórðungur ársins í ár borinn saman við sama tíma í fyrra. Hlutfallsleg verðbreyting á flugi til Mílanó var sú sama á sama tímabili.
Ísland er vinsælast meðal breskra og bandaríska ferðamanna. Aukning breskra ferðalanga til Íslands nam 36 prósentum samkvæmt talningu Ferðamálastofu á fjölda ferðamanna í apríl, maí og júní. Flogið er frá ellefu flugvöllum í Bretlandi til Íslands. Fjórir þessara valla eru í London.
Íslensku flugfélögin fljúga áætlunarflug til margara áfangastaða í Bretlandi. WOW air flýgur til fjögurra áfangastaða og Icelandair til fimm borga.