Endurheimtur á ólögmætri ríkisaðstoð eru og hafa verið vandamál á Íslandi. Þetta segir Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, í samtali við Kjarnann. ESA hefur áhyggjur af stöðu mála í þessum málaflokki hér á landi.
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrir helgi var Ísland dæmt fyrir EFTA dómstólnum í síðustu viku fyrir að endurheimta ekki ólögmæta ríkisaðstoð í tengslum við ívilnunarsamninga við fimm fyrirtæki, Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagið, Thorsil og GMR endurvinnsl una.
ESA hafði komist að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að samningarnir við þessi fyrirtæki fælu allir í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum og stjórnvöldum á Íslandi var fyrirskipað að stöðva allar frekari greiðslur ríkisaðstoðar og sjá til þess að öll aðstoðin sem hafði verið veitt fram að því yrði endurgreidd innan fjögurra mánaða. Íslensk stjórnvöld áttu einnig að tilkynna ESA hver heildarfjárhæðin af þessari ríkisaðstoð væri og hvernig ætti að endurheimta peningana.
Íslensk stjórnvöld uppfylltu ekkert af þessum skilyrðum og því var ákveðið að fara með málið fyrir dóm. Dómurinn staðfesti niðurstöðu ESA og brot Íslands og íslenska ríkið þarf því að greiða allan málskostnað.
Atvinnuvegaráðuneytið gerði lítið úr dóminum í fréttatilkynningu sem það sendi frá sér um málið fyrir helgi. Þar kemur aðeins fram að EFTA dómstóllinn hafi átalið drátt á endurheimt og sagt að íslensk stjórnvöld hafi unnið að lausn málsins undanfarna mánuði í samráði við umrædd fyrirtæki. Stefnt sé að því að ljúka málunum á næstu vikum.
Mathiesen segir við Kjarnann að endurheimtur hafi verið vandamál á Íslandi og að verið sé að vinna að lausn þessa vandamáls í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Eftirlitssstofnunin hafi hins vegar áhyggjur af því að ekki hafi verið brugðist fyrr við málinu. Samkvæmt því sem kemur fram í dómi EFTA dómstólsins gerðu íslensk stjórnvöld ekki athugasemdir við ákvörðun ESA og vissu því að þau yrðu að hlíta þeirri ákvörðun. Engu að síður hafi ekki verið aðhafst við að endurheimta aðstoðina á réttum tíma, og að stjórnvöld hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því fyrir dómi að samningarnir hafi verið ógildir eða að greiðslum til fyrirtækjanna hafi verið hætt. Þá hafi Ísland ekki sýnt fram á nákvæmar upphæðir sem ætti að endurheimta né heldur hvernig stæði til að standa að endurheimtunum.
Íslensk stjórnvöld héldu því fram fyrir dómi að upphæðirnar sem um ræðir séu mjög litlar. Mathiesen segir að upphæðirnar hafi vissulega ekki verið mjög háar, en það veki einmitt upp áhyggjur af því hvað myndi gerast í stærri málum. „Myndi þá taka ennþá lengri tíma að endurheimta ríkisaðstoðina? Það er það sem við höfum miklar áhyggjur af.“
Mathiesen segir að ESA leggi áherslu á að ráðist verði í kerfisbreytingar á Íslandi til þess að breyta þessu.