Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flytur erindi á Hinsegin dögum næstkomandi laugardag. Þetta er í fyrsta sinn sem forseti Íslands kemur að einhverju móti að dagskrá Hinsegin daga. Guðni er búinn að vera forseti í rúmlega hálfan sólarhring, en hann var settur í embætti seinnipartinn í gær.
Sólheimar, Fiskidagur og Reykjavík Pride
Guðni lætur það verða sitt fyrsta embættisverk að fara í heimsókn að Sólheimum í Grímsnesi. Guðni og Eliza Jean Reid eiginkona hans, leggja land undir fót nú strax fyrir hádegi í dag og borða hádegisverð með íbúum á Sólheimum og eiga með þeim samverustund. Guðni og Eliza eru búin að vera forsetahjón í rúmlega hálfan sólarhring, en Guðni sór embættiseiðinn klukkan rúmlega fjögur í gær. Guðni óskaði sjálfur eftir heimsókninni á Sólheima, er greint er frá á mbl.is.
Á föstudag mætir forsetinn ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum síðan til Dalvíkur til að vera viðstaddur Fiskidaginn mikla á Dalvík. Guðni flytur þar svokallaða Vináttukeðjuræðu og hyggst skemmta sér með fjölskyldu sinni í bænum, snæða fiskisúpu og fara á tónleika. Daginn eftir, á laugardeginum klukkan 15:30, flytur Guðni svo ræðu ræðu á Hinsegin dögum á Arnarhóli í Reykjavík, en verður svo aftur mættur á Dalvík um kvöldið.
Bessastaðaveisla
Guðni og Eliza buðu til veglegrar veislu á Bessastöðum eftir athöfnina í gær og mættu um 150 til 200 manns þangað. Fjölskyldan er þó enn ekki flutt á Álftanesið af Seltjarnarnesinu, en nú standa yfir framkvæmdir við íbúðarhúsið á Bessastöðum til þess að það henti sex manna fjölskyldu með fjögur ung börn.