Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ekki verið læra í um fjóra mánuði. Tunna af Norðursjávarolíu, sem kölluð er Brent-olía á mörkuðum, kostaði 41,5 Bandaríkjadal við lokun markaða á föstudag. Það er þó langt frá því að vera lægsta verðið sem olía hefur farið á á þessu ári. Í janúar fór verð á tunnu af Norðursjávarolíu niður fyrir 30 dollara.
Síðan hefur verðið hækkað nokkuð og náði hámarki í júní. Eftir það hefur verðið lækkað og er skýringin talin felast í offramboði olíu á markaði. Ástæða verðhækkunarinnar á öðrum ársfjórðungi er einnig fela í sér ástæður þess að verðið falli nú. Í Kúveit var verkfall olíuiðnaðarmanna, framleiðsla minnkaði mikið í Nígeríu og Líbíu og gróðureldar geisuðu við kanadísku tjörusandana.
Búist er við að olíuverðið haldi áfram að lækka á næstu vikum. Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hafði minnkað hratt þar til á undanförnum vikum þegar fjöldi olíubora hefur aukist mikið og framleiðslan um leið. Þá er unnið að enduropnunum á olíuborholum í Líbíu eftir átökin þar í landi og arabíska vorið.
Samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) telja að olíuframleiðsla ríkja samtakanna hafi náð hámarki í júlí. Sádí-Arabía, langstærsti útflytjandi hráolíu í heiminum, hefur framleitt nærri því jafn mikið og þegar mest hefur verið undanfarið, Írakar dæla meiri olíu upp úr jörðinni en nokkru sinni og Nígería framleiðir mikið þrátt fyrir óöld í landinu. Í júní var framboðið á olíutunnum á dag 33,31 milljón tunnur og í júlí buðust 33,41 milljón tunnur á dag.
Sveiflur á olíuverði á Íslandi hafa ekki verið eins miklar og á heimsmarkaðsverðinu undanfarin tvö ár. Sé verðþróunin á bensínlítranum hér landi borin saman við verð á Norðursjávarolíu sést að verðsveiflurnar hafa verið mun lygnari en dramatísku sveiflurnar á heimsmarkaði. Undanfarin eitt og hálft ár hefur gengi íslensku krónunnar styrkst nokkuð gagnvart Bandaríkjadal sem ætti einnig að hafa áhrif á bensínverð hér á landi.
Lygnari sveiflur í olíuverði hér landi miðað við heimsmarkaðsverð skýrast einkum af því að í útsöluverðið er að meirihluta skattar og opinber gjöld, sem sveiflast ekki með heimsmarkaðsverði. Lítraverð á bensíni á Íslandi er nú um það bil 190 krónur, en það fór lægst í um 180 krónur í kjölfar lægðar heimsmarkaðsverðsins í febrúar. Fyrir ári síðan kostaði lítrinn af bensíni um 220 krónur. Í byrjun ágúst árið 2014 kostaði lítrinn af bensíni hins vegar rúmar 240 krónur.
Hráolíuverð miðað við eldsneytisverð á Íslandi og olíuverð miðað við gengi krónu gagnvart dollar
Heimild: oil.laxdal.org.
Ísland nýtur góðs af lágu olíuverði, í það minnsta þegar beinu áhrifin eru skoðuð. Ef verðið er lágt, þá þarf minni gjaldeyri í að kaup olíuna heldur en þegar það er hátt. Óbeinu áhrifin eru síðan þau, að oft er fylgni milli verðsveiflna olíunnar og síðan annarra hrávara. Þannig skilar mikil lækkun á olíuverði sér oft í því, með tímanum, að verð lækkar á innfluttum afurðum. Það dregur síðan úr verðbólgu. Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkaði undanfarið ár, og mælist nú 1,1 prósent á ársgrundvelli.