Alls hafa um 400 atkvæði verið greidd í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu fyrir þá 105 frambjóðendur sem bjóða sig fram í kjördæminu. Tímaramminn sem kjósendur hafa er meira en hálfnaður, en opnað var fyrir kosningu 2. ágúst síðastliðinn og henni lýkur 12. ágúst, á föstudaginn klukkan 18. Kosningin er rafræn.
Í suðurkjördæmi eru 25 frambjóðendur og hafa 58 kosið. Tímaramminn er nánast sá sami, en kosningu lýkur á miðnætti 2. ágúst.
Ef allir frambjóðendur eru búnir að greiða atkvæði þýðir það að þeir eru um fjórðungur kjósenda í Reykjavíkurkjördæmi og um helmingur kjósenda í Suðurkjördæmi.
Framboðslisti Pírata í norðausturkjördæmi varð ljós í lok júní, en þar greiddu 39 manns atkvæði til að samþykkja listann. 78 kusu í prófkjörinu.