Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, hafnar öllum ásökunum Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, um að starfsmenn embættisins hafi leynt sönnunargögnum í máli gegn Kaupþingsmönnum. Þetta kemur fram í viðtali við Ólaf Þór á RÚV.
Líkt og greint var frá í gær hefur Hreiðar Már farið fram á lögreglurannsókn á starfsháttum sérstaks saksóknara. Hann fullyrðir að starfsmenn þar hafi leynt mikilvægum sönnunargögnum í máli gegn sér, sem hefði mögulega leitt til sýknu. Hreiðar Már hefur ítrekað gagnrýnt saksóknara fyrir að veita ekki aðgang að öllum gögnum sem lögregla hefur úr tölvukerfi Kaupþings.
Ólafur segist ekki vilja tjá sig um málið efnislega en segir: „Við höfnum öllum ásökunum á hendur starfsmönnum embættisins. Og nú er þetta mál í reynd rekið fyrir Hæstarétti og ég reikna með að þar verði tekið á þessari málsástæðu og öðrum í tengslum við úrlausn Hæstaréttar á þessu máli.“ Hann segir að niðurstaðan í þessu muni fást þar, þessum atriðum verði haldið til haga, væntanlega mun verjendur tefla þessu fram og Hæstiréttur muni þá skera úr um hvort hann horfi til þessa eða ekki.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir að málið sé til meðferðar hjá embættinu og ekki sé búið að ákveða hvort það verður rannsakað eða fellt niður.