Ólafur Ólafsson fjárfestir var saklaus dæmdur af reiðu og örvæntingarfullu samfélagi, og dómskerfið fylgdi eftir dómum samfélagsins „á kaldrifjaðan og þaulskipulagðan hátt.“ Þetta skrifar Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs, í grein sem birtist á Vísi í dag.
Ingibjörg skrifar meðal annars um Kvíabryggju, þar sem eiginmaður hennar afplánaði hluta dóms síns fyrir hlut sinn í Al Thani-málinu þar til fyrir skömmu. Hann er nú á Vernd. Hún skrifar um fangana sem þar eru og segir: „Sumir hafa drýgt hrottalega glæpi, aðrir hafa einfaldlega orðið undir í lífinu, og …enn aðrir eru þarna af því að samfélagið þurfti útrás fyrir reiði sína.
Tilhugsunin um að þarna inni sitji hugsanlega fleiri menn, saklausir eins og maðurinn minn, dæmdir af reiðu og örvæntingarfullu samfélagi er ekki góð,“ skrifar Ingibjörg. „Sú staðreynd að dómum samfélagsins var síðan löngu seinna, á kaldrifjaðan og þaulskipulagðan hátt, fylgt eftir af stórgölluðu dómskerfi, rekið áfram af annarlegum hagsmunum dómara sem eru virkir þáttakendur og partur af þessu samfélagi, tengdir fjölskyldu- og vinaböndum þvers og kruss….er heldur verri.“
Hún segir að svo til allt sem eigi að vera heilagt í nútímaþjóðfélagi, sem setji mannréttindi ofar öllu, hafi verið vanvirt eða hent fyrir róða í málinu gegn manni hennar og öðrum sem dæmdir voru. „Hugtök eins og „saklaus uns sekt er sönnuð“ hafa ekkert gildi, „vanhæfi dómara“ skiptir engu máli, „borgaraleg réttindi sakborninga“ eru fótum troðin.“
Hún segir að dómurum sé gefið gífurlegt vald til að svipta manneskju frelsinu. Dómarar þurfi að vera hafnir yfir allan vafa og heilindi þeirra þurfi að vera ótvíræð. „Svo er því miður ekki.“
Ingibjörg segir það sitt verkefni að fyrirgefa samfélaginu dómhörkuna, og hún sé á góðri leið með það. „Ég mun hins vegar eiga erfiðara með að fyrirgefa kerfinu, kaldrifjuðum dómurum og embættismönnum sem vernda sína menn út í hið óendanlega og metnaðarlausum stjórnmálamönnum sem hafa ekki þor til að stíga fram og stoppa þessa aðför að saklausu fólki.“
Hún segir það verkefni samfélagsins að horfast í augu við það „hve hrapalega okkur hefur mistekist að gera upp efnahagshrunið á réttlátan og heiðarlegan máta. Nornaveiðar samtímans munu snúast uppí skömm morgundagsins.“
Ólafur Ólafsson hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða fyrr á þessu ári fyrir markaðsmisnotkun.