Sprengingin varð í brúðkaupsveislu sem haldin var utandyra og eru nú í það minnsta 50 látnir og yfir 100 slasaðir, sumir alvarlega, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Borgin, þar sem sprengingin varð, er í suðurhluta Tyrklands, rúmum 60 kílómetrum frá landamærunum að Sýrlandi. Af um 1,5 milljóna heildaríbúafjölda er meirihluti kúrdar. Mehmet Simsek, aðstoðarforsætisráðherra, segir árásina villimannslega. Enn hefur enginn lýst ábyrgð árásarinnar á hendur sér, en samkvæmt nýjustu fréttum bendir margt til þess að sjálfsmorðsárásin hafi verið framkvæmd af 12 til 14 ára barni.
Stjórnvöld telja að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) beri ábyrgð á henni. Sýrlenskar uppreisnarsveitir hafa sótt að þeim ásamt hersveitum kúrda og sérsveitum bandaríska hersins að undanförnu, og er jafnvel talið að um hefndarárás hafi verið að ræða.
Erdogan Tyrklandsforseti sendi frá sér yfirlýsingu í nótt þar sem hann sagði íslamska ríkið líklega ábyrga. Hann sagði jafnframt að það væri enginn munur á hryðjuverkasamtökunum og hreyfingu klerksins Fethullah Gulen, sem hann segir ábyrgan fyrir valdaránstilrauninni í júlí. Gulen harðneitar því og hefur sagt að valdaránstilraunin hafi verið sviðsett, til að Erdogan gæti hafið „hreinsunarstarf“ sitt í Tyrklandi, og þaggað niður í andstæðingum sínum.
Á þessu ári hafa hryðjuverk verið tíð í Tyrklandi, en í júní létust yfir 40 manns í árás á flugvöllinn í Istanbúl.