Bann við því að konur klæðist svokölluðum búrkíníum hefur verið fellt úr gildi af æðsta stjórnsýsludómstóli Frakklands. Úrskurður dómstólsins er tímabundinn og tekur aðeins til banns sem sett var á í einum bæ í Suður-Frakklandi, en það er talið munu hafa fordæmisgildi.
Á annan tug bæja og borga í Frakklandi hafa bannað strandklæðnað sem hefur trúarlega tengingu, sem beinist eingöngu gegn búrkíníum, sem eru heilklæðnaður kvenna. Mannréttindasamtök kærðu bannið í einum bæ, Villeneuve-Loubet í nágrenni Nice, til dómstóla. Lægri dómstóll úrskurðaði á mánudag að bannið þar væri nauðsynlegt til að koma í veg fyrir óspektir á almannafæri. Þessu snéri æðsti dómstóll við í dag, tímabundið, á meðan fjallað er um málið nánar. Samkvæmt frönskum lögum má taka tímabundnar ákvarðanir áður en dómstóll tekur sér frekar tíma til að gefa út endanlegan dóm þar sem ákvörðun hefur verið undirbyggð.
Yfirvöld í þessum borgum og bæjum settu búrkíní-bannið á eftir árásina í Nice á Bastilludaginn og morð á presti í Normandí. Ýmsar ástæður voru notaðar til rökstuðnings á banninu, meðal annars að það væri nauðsynlegt til að viðhalda ró, hreinlætisástæður og einnig frönsk lög sem kveða á um veraldarhyggju.
Mannréttindasamtökin sem kærðu bannið hafa haldið því fram að bannið ýti undir ótta og séu brot á sjálfsögðum réttindum.
Deilan um málið ýfðist upp eftir að myndir komust í dreifingu sem sýndu lögreglumenn umkringja konu á strönd í Nice og sekta hana fyrir að vera í búrkíní, sem hún var þó ekki tæknilega séð.