Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, hefur óskað eftir fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og/eða Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra, til að ræða stöðuna sem upp er komin í Tyrklandi. Þetta kemur fram í bréfi Skúla til Sigurðar Inga, sem sent var á mánudag.
Í bréfi sínu vitnar Skúli til harðorðaðrar ályktunar norrænu dómarafélaganna um aðgerðir stjórnvalda í Tyrklandi gegn dómurum í kjölfar tilraunar til valdaráns þar í landi í júlí síðastliðnum. Í ályktun dómaranna er aðgerðunum, sem hafa meðal annars falið í sér handtöku og gæslu þúsunda dómara, lýst sem hreinsunum. Þær brjóti í bága við mannréttindasáttmálann og aldrei sé hægt að réttlæta aðgerðir af þessu tagi með neyðarlögum. Í ályktuninni eru stjórnvöld á Norðurlöndunum hvött til þess að grípa til aðgerða vegna ástandsins.
„Þótt umræddar aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda hafi komið til í beinu framhaldi af tilraun til valdaráns og neyðarástandi í landinu er óhjákvæmilegt að benda á að staða dómara hefur um árabil farið versnandi, líkt og alþjóða- og evrópusamtök dómara hafa ítrekað bent á. Skipaðir dómarar hafa svo hundruðum skiptir verið færðir á milli starfstöðva gegn vilja sínum að því er virðist í þeim tilgangi að tryggja hlýðni við stefnumál og aðgerðir stjórnvalda. Stjórnvöld hafa einnig á undanförnum árum skipað fjölda nýrra dómara í þeim tilgangi að endurnýja dómarastéttina á sem skemmstum tíma,“ segir í bréfinu. Einnig hafi tveir dómarar sem beittu sér í málum sem tengdust meintri spillingu ráðamanna verið handteknir, sviptir embætti og ákærðir fyrir brot í starfi í fyrra. Stjórnvöld hafi einnig haft horn í síðu tyrkneska dómarafélagsins og það hafi nú verið alfarið lagt niður af stjórnvöldum.
Vegna alls þessa óskar Skúli eftir fundinum. Tyrkland sé aðili að Evrópuráðinu og samstarfsríki Íslands innan Norður-Atlantshafsbandalagsins, og hann vilji ræða stöðuna sem upp er komin og það hvernig Ísland geti lagt lóð á vogarskálarnar.