Tilgangur kaupaukaáætlunar Kaupþings er að hámarka virði eigna félagsins til hagsbóta fyrir hluthafa þess, að halda mikilvægum starfsmönnum eins lengi og þörf sé á og til að hvetja starfsmenn félagsins til að vinna skilvirkt að því að gera störf sín óþörf. Fyrir þetta ætlar Kaupþing, sem er eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir slitabús Kaupþings, að greiða um 30 manna hópi starfsmanna sinna allt að 9,3 milljónir punda, eða um 1,5 milljarða íslenskra króna. Einu starfsmenn Kaupþings sem falla ekki undir kaupaukaáætlunina eru tveir æðstu stjórnendur félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kaupþing birti á heimasíðu sinni í dag. Greint hefur verið frá því að hugsanlega verði komið upp sérstöku kaupaukakerfi fyrir helstu stjórnendur og stjórn Kaupþings til viðbótar við það sem gildir fyrir starfsmenn.
Væntanlegar bónusgreiðslur félaga sem halda utan um eftirstandandi eignir slitabúa föllnu bankanna hafa vakið mikla reiði í samfélaginu undanfarna daga. Greint hefur verið frá því að félög sem halda utan um eftirstandandi eignir gamla Landsbankans, Glitnis og Kaupþings ætli öll að greiða starfsmönnum sínum gríðarlega háar upphæðir fyrir að koma eignunum í verð.
Bónusgreiðslur til starfsmanna Kaupþings eiga að greiðast út ekki síðar en í lok apríl 2018. Stærsta eign félagsins er 87 prósent hlutur í Arion banka, viðskiptabanka sem starfar aðallega á íslenskum markaði og er að mestu fjármagnaður með innlánum. Aðrar eignir félagsins eru að mestu erlendar og í tilkynningu frá félaginu er sérstaklega tekið fram að það eigi hvorki íslensk veð né íslenskar húsnæðisskuldir. Þá séu um 93 prósent hluthafa Kaupþings, sem áður voru kröfuhafar slitabús bankans, erlendir. Þar sem Kaupþing sé eignarhaldsfélag, ekki banki né annars konar fjármálafyrirtæki, gilda reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja sem takmarka slíka ekki um það.
Kaupaukaáætlunin var samþykkt af hluthöfum Kaupþings á þriðjudagskvöld. Þar kusu 91 prósent hluthafa með henni en fyrirsvarsmenn 88 prósent eignarhlutar í félaginu mætti á fundinn.