Leikskólum, leikskólabörnum og starfsfólki sem starfar á leikskólum fækkar á milli ára á Íslandi. Í desember síðastliðnum sóttu alls 19.362 börn leikskóla, eða 576 færri en á sama tíma árið áður. Fækkunin stafar af fámennari árgöngum. Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Hagstofu Íslands.
Leikskólum fækkaði um fjóra á milli ára og voru 251 í lok síðasta árs. Flestir voru þeir 282 árið 2009 og hefur því fækkað um 31 síðan þá. Sveitafélög reka 86 prósent allra leikskóla á landinu.
Yfir helmingur starfsfólks ómenntaður
Menntuðum leikskólakennurum sem starfa á leikskólum hefur fækkað nokkuð hratt á undanförnum árum, eða um 202 frá árinu 2013. Í desember í fyrra voru þeir 1.758 talsins eða um þriðjungur starfsmanna leikskóla. Starfandi leikskólakennurum hefur fækkað um 202 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Starfsmönnum sem lokið hafa annarri uppeldismenntun hefur einnig fækkað mikið, eða um 97 frá árinu 2014.
Ófaglærðum starfsmönnum hefur á hinn bóginn fjölgað mikið og þewir eru nú rúmlega helmingur (52,2 prósent) allra starfsmanna leiksskóla landsins. Þeim hefur fjölgað árlega frá árinu 2011. Körlum sem starfa á leikskólum fækkaði á síðasta ári um 34 og voru 350 talsins í desember 2015. Þá voru þeir 5,9 prósent allra starfsmanna leikskóla landsins.
Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fjölgaði á milli áranna 2014 og 2015 og eru drengir sem fyrr fleiri í þeim hópi en stúlkur.
Viðvera barna á leikskólum hefur hægt og bítandi verið að lengjast undanfarin ár. Í desember 2015 voru um 87 prósent barna lengur en átta tíma á dag á leikskóla. Árið 1998 var það hlutfall 40,3 prósent. Börnum sem dvelja einungis hálfan daginn á leikskóla hefur fækkað mikið.
Þúsund fleiri börn með erlent ríkisfang en 2001
Fjölmenningin skilar sér einnig inn á leikskólanna. Árið 2001 var eitt prósent leikskólabarna með erlent ríkisfang en í desember síðastliðnum voru sex prósent þeirra með slíkt. Fjöldi barna með erlent ríkisfang óx úr 159 árið 2001 í 1.165 í fyrra. Þeim fækkaði þó á síðasta ári um 69 og er það í fyrsta sinn sem börnum með erlent ríkisfang fækkar á milli ára frá því að Hagstofan hóf að taka saman upplýsingar um þau skömmu eftir síðustu aldarmót.
Börnum með erlent móðurmál hefur fjölgað úr 755 árið 2001 og eru nú 2.435 talsins, eða 12,6 prósent allra leikskólabarna. Þeim fjölgaði um 238 í fyrra. Í frétt Hagstofunnar segir að pólska sé algengasta erlenda tungumál leikskólabarna og að 935 börn hafi haft pólsku að móðurmáli í desember í fyrra. Næst flest börn eiga ensku að móðurmáli og því næst filippseysk mál.