„Svona sterk skilaboð hafa ekki verið send í langan tíma,“ segir Páll Erlingsson, formaður Kennarafélags Reykjaness, í viðtali við Morgunblaðið í dag, og vísar til þeirrar stöðu sem nú er uppi í kjaradeilu Félags grunnskólakennara og sveitarfélaga en félagsmenn hafa nú á skömmum tíma í tvígang fellt kjarasamning. Samkvæmt honum áttu laun kennara að hækka um 9 prósent á tveimur árum, en eins og mál standa nú eru engar viðræður í gangi og alls óvíst hvenær hægt verður að reyna í þriðja sinn að ná samningum sem kennarar geta sætt sig við.
„Ég vona að sjálfsögðu það besta. En það er fullt af fólki sem er reiðubúið til að gera ýmislegt – maður veit ekki hvað verður. Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af er að ef ekkert lagast þá verður flótti úr stéttinni,“ segir Páll í viðtali við Morgunblaðið.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, segir stöðuna þrönga. Sveitarfélög ráði ekki við frekari hækkanir á launum, og því sé ekkert nýtt fram að færa í viðræðum. Málin hafi margsinnis verið rædd, og nú sé stál í stál.
Um 57 prósent þeirra sem kusu um samninginn á mánudaginn sögðu nei við honum, en 39 prósent vildu semja. Á kjörskrá voru 4.513.