Staðreyndavaktin er nýr liður á vef Kjarnans, sem hefur göngu sína innan tíðar. Á staðreyndavaktinni verða fullyrðingar stjórnmálamanna skoðaðar og sannleiksgildi þeirra kannað, en slíkt form fréttaskýringa er að ryðja sér til rúms víða um heim.
Ritstjórn Kjarnans mun fylgjast með ummælum sem látin eru falla og lesendur eru sérstaklega hvattir til þess að senda ritstjórn ábendingar um efni sem þeir vilja láta kanna. Birtar verða fréttaskýringar þar sem fullyrðingar og ummæli verða skoðuð og greind. Hægt er að senda ábendingar á netfangið stadreyndavaktin@kjarninn.is.
Staðreyndavaktin mun notast við fimm stiga einkunnakvarða til þess að meta sannleiksgildi. Fullyrðingar sem teknar verða til skoðunar munu fá eina af eftirfarandi fimm einkunnum:
Samstarf við Vísindavefinn
Kjarninn og Vísindavefur Háskóla Íslands munu einnig eiga með sér samstarf í staðreyndavöktun, en Vísindavefurinn hefur stofnað sína eigin staðreyndavakt nú í aðdraganda Alþingiskosninga, og verða svör frá sérfræðingum Vísindavefsins birt bæði þar og á vef Kjarnans. Einkunnakvarði Kjarnans verður ekki notaður af Vísindavefnum.
Vísindavefurinn verður sérstaklega á vaktinni hvað varðar spurningar sem gætu vaknað í tengslum við kosningabaráttu flokkanna fyrir þingkosningarnar í lok október.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, munu sjá um faglega ritstjórn svaranna frá Vísindavefnum.
Hægt er að senda inn spurningar á forsíðu Vísindavefsins, þar sem sjá má grænan hnapp sem á stendur Senda inn spurningu.