Gulnara Karimova er engin venjuleg athafnakona. Þessi 44 ára þúsundþjalasmiður lauk doktorsprófi árið 2001 en ári áður kláraði hún meistaranám í Harvard. Sex árum síðar varð hún aðstoðarutanríkisráðherra Úsbekistan, fastafulltrúi landsins hjá Sameinuðu þjóðunum og seinna sendiherra á Spáni. Sú staðreynd að faðir hennar var forseti Úsbekistan hafði vafalaust áhrif á það að hún hlaut jafn skjótan frama og raun ber vitni.
En nú er hafinn darraðardans í Tashkent, höfuðborg Úsbekistan, vegna þess að pabbi hennar Gulnöru er dáinn. Islam Karimov var einræðisherra í tæpa þrjá áratugi eða allt frá því fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Úsbeka í kjölfar falls Sovétríkjanna. Úsbekistan er fjölmennasta ríki mið Asíu með um 30 milljónir íbúa. Lega þess er hernaðarlega mikilvæg. Birgðastöðvar Bandaríkjahers eru í landinu og voru þær nýttar í stríðinu í Afganistan. Stjórnin í Tashkent er harðhent og upplýsingagjöf ógagnsæ. Leyniþjónustan og valdaklíkur í höfuðborginni fara með mikil völd. Þegar þegnar mótmæla ríkisstjórninni er brugðist hart við og hafa andstæðingar stjórnvalda verið soðnir lifandi.
Gulnara var áður álitin krónprinsessa Úsbekistan og hugsanlegur arftaki föður síns. En ljóst er að líkurnar á forsetaembætti í föðurarf eru afar litlar nú þar sem hún hefur verið í stofufangelsi ásamt dóttur sinni síðan 2014. Hópur sænskra rannsóknarblaðamanna komst að því að sænsk-finnska fjarskiptafyrirtækið Telia Sonera hefði borgað um 400 miljónir dala í mútugreiðslur til aðila tengdum Gulnöru. Málið er enn þann dag í dag stærsta mútumál í sögu Norðurlanda.
Það mál var eitt margra spillingarmála sem rakin hafa verið til hennar. Verstu tilfellin voru á fjarskiptamarkaði Úsbekistan en hún kúgaði erlenda fjárfesta sem vildu þar inn um stjarnfræðilega háar upphæðir. Einnig á hún að hafa lekið upplýsingum sem komu illa við æðstu stjórnarmenn landsins. Eftir ótrúlegan feril settu þeir hana á bak við lás og slá. Hann fékk heilablóðfall nýverið eftir að hafa skálað við úsbeska Ólympíufara í vodka eftir að þeir síðarnefndu komu heim frá Ríó.
Shavkat Mirziyoyev forsætisráðherra hefur verið skipaður starfandi forseti. Hann er þekktur fyrir að nota hnefana frekar en heilann til að ná sínum málum fram. Hann er sagður vera nátengdur áhrifamiklum rússneskum milljarðamæringum. Enn fremur er hann æðsti yfirmaður landbúnaðargeirans í landinu, þ.á.m. hins mikilvæga bómullartýnslugeira þar sem ásakanir um almenna þrælkun og barnaþrælkun hafa komið fram.
Líklegt er að yfirmaður SNB leyniþjónustunnar í landinu, Rustam Inoyatov, hafi gefið grænt ljós á arftakann. Leynilögregluforinginn á víst nægilega vandræðalegar upplýsingar um flesta hátt setta stjórnmálamenn í landinu til að geta haft áhrif á þá. Rustam leiddi handtökuna á Gulnöru Karimovu forsetadóttur og nokkurra bandamanna hennar. Handtakan hefði aldrei átt sér stað nema með samþykki fyrrverandi forseta og föður hennar.
Eftir að hún lenti í stofufangelsi tókst henni að leka handskrifuðum bréfum til BBC. Þar kom meðal annars fram að unnusti hennar hafi verið dreginn á hárinu með bundið fyrir augun á meðan handtökunni stóð. Í bréfunum segir hún einnig frá því hvernig hún hafi áttað sig á bágri aðstöðu samborgara sinna á meðan fangelsisvistinni stóð. En slíkar uppgötvanir munu varla að vekja meðaumkun hjá neinum.
Gulnara var mikil félagsvera. Bandaríska sendiráðið lýsti henni sem hötuðustu manneskjunni í Úsbekistan. Hún vílaði það ekki fyrir sér að baða sig í sviðsljósinu. Hún samdi og flutti dægurlög undir sviðsnafninu Googoosha og tók upp krassandi tónlistarmyndbönd m.a. í dúett með Gerard Depardieu.
Þrátt fyrir að vera ríkt af auðlindum þá er efnahagur Úsbekistan bágborinn. Ríkið er eitt einangraðasta og strangasta alræðisríki heims. Helstu atvinnugreinarnar eru bómullarvinnsla, gullnámugröftur og jarðgas. Fyrir utan að eiga landamæri að Afganistan þá eru Rússland og Kína ekki langt undan. Þróun stjórn- og efnahagsmála þar mun ekki fara framhjá þessum stórveldum né heldur Bandaríkjunum sem horft hefur í gegnum fingur sér varðandi stöðu mannréttindamála í landinu.
Þar sem harður kerfiskarl mun taka við forsetakeflinu af harðstjóra sem ríkti í landinu í 27 ár er líklegt að aðstæður íbúa landsins muni lítið breytast.