Össur Skarphéðinsson þingmaður varð efstur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Úrslitin voru tilkynnt núna í kvöld. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður varð í öðru sæti, Eva Baldursdóttir lögfræðingur í því þriðja og Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar í fjórða sæti. Athygli vekur að Valgerður Bjarnadóttir þingmaður varð ekki meðal efstu fjögurra. Össur og Sigríður Ingibjörg munu því leiða lista Samfylkingarinnar í sitthvoru Reykjavíkurkjördæminu í Alþingiskosningunum 29. október.
Fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi voru kynntar í kvöldfréttatíma RÚV. Fjögur efstu sætin verða skipuð körlum. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, var efstur þegar búið var að telja 1.008 atkvæði af 3.154 greiddum atkvæðum. Bjarni lýsti yfir vonbrigðum með að vera ekki með konu ofarlega á listanum. Hann segir flokkinn þurfa að kanna það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn geti komið því skýrt til kynna að flokkurinn ætli konur og karla jafnan hlut.
Jón Gunnarsson þingmaður var í öðru sæti, Óli Björn Kárason ritstjóri í þriðja sæti og Vilhjálmur Bjarnason þingmaður var í því fjórða. Karen Elísabet Halldórsdóttir er efsta konan á listanum og Bryndís Haraldsdóttir kemur á hæla hennar í sjötta sæti. Athygli vakti að Elín Hirst þingmaður flokksins í kjördæminu var ekki á meðal sex efstu. Hún sagði niðurstöðuna vera vonbrigði.
Þrjú önnur prófkjör fóru fram í dag. Samfylkingin hélt einnig prófkjör í Norðvesturkjördæmi og í Suðvesturkjördæmi. Sjálfstæðisflokkurinn hélt einnig prófkjör í Suðurkjördæmi. Niðurstaðna úr öllum prófkjörunum er að vænta í kvöld.