Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, segist hafa ofkeyrt sig og að hún hafi talið að hún gæti hrist af sér lungnabólguna sem hefur verið að plaga hana undanfarna daga. „Ég hélt að ég gæti farið í gegnum þetta, og taldi að lungnabólgan væri ekki það alvarleg. En það var ekki rétt hjá mér,“ sagði Hillary Clinton, í viðtali við CNN í dag. Hún er nú að jafna sig af lungnabólgu sem hún greindist með, eftir að hafa leitað til læknis í kjölfar þess að hún fékk aðsvif á minningarathöfninni um fórnarlömb árásanna 11. september 2001.
Sjálf hafði hún fengið upplýsingar um, að hún gæti verið með lungnabólgu, en var ekki búin að láta lækni greina veikindi sín nægilega vel. „Mér var sagt að hvíla mig í fimm daga, en ég fór ekki eftir því, og því fór sem fór. Nú ætla ég að jafna mig almennilega og koma svo aftur inn í baráttuna full af orku,“ sagði Hillary í viðtali við Anderson Cooper.
Strax í kjölfar þess, að myndir náðust af Hillary, þar sem hún er studd af aðstoðarfólki inn í bíl eftir að hafa yfirgefið minningarathöfnina, fór af stað orðrómur um að Demókratar þyrftu að finna nýjan frambjóðanda í kosningunum. Fundað var um málið í röðum Demókrata, en Hillary sjálf segir ekkert slíkt á dagskrá. Hún sé einfaldlega að hrista af sér lungnabólguna, og það taki meiri tíma en hún hafi ráðgert.
Hillary mælist nú, í flestum skoðanakönnunum, með meira fylgi en keppinautur hennar hjá Repúblikönum, Donald J. Trump, en kosið verður í Bandaríkjunum 8. nóvember. Fylgið hefur þó sveiflast nokkuð og hefur Trump verið að vinna á í nokkrum ríkjum.
Þó veikindin komi á versta tíma í kosningabaráttunni, þegar mikið er um ferðalög og reynt að stilla saman strengi í baklandi flokkanna, þá vonast Hillary til þess að ná vopnum sínum fljótt.