Sex af hverjum níu stjórnendum fyrirtækja í Bretlandi eru svartsýnir á að skapa ný störf og tengja þeir stöðuna við Brexit-kosninguna í Bretlandi, þar sem almenningur kaus með því að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið. Ekki liggur fyrir enn hvernig að því verður staðið, en Theresa May, forsætisráðherra, hefur ítrekað að við það verði staðið.
Könnunin, sem var með stóru úrtaki, var gerð í sumar en niðurstöðurnar voru kunngerðar í gær. Það var alþjóðlega fyrirtækið Manpower sem framkvæmdi könnunina, en hún nefnist Manpower Employment Outlook Survey. Með könnuninni reynir fyrirtækið að kortleggja í hvaða geirum atvinnulífsins störfum muni fjölga og í hvaða geirum störfum muni fækka.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC þá náði könnunin til 2.100 stjórnenda fyrirtækja, og voru þeir spurðir út í ráðningarhorfur á næstu misserum. Horfurnar þykja sérstaklega slæmar í fjármálageiranum og í mannvirkjageiranum, en fall pundsins hefur komið illa við ýmsa geira sem reiða sig á innflutt efni af ýmsu tagi, eins og þarf til húsbygginga.
Smásalar bera sig betur, og segjast ekki hafa fundið fyrir miklu falli í verslun ennþá, og telja að horfur á markaði séu ekki svo slæmar.
Samtals telja 8 prósent stjórnenda að þeir muni fjölga starfsfólki, um fjögur prósent telja öruggt að þeir muni fækka fólki, en 87 prósent að starfsmönnum muni ekki fjölga.
Gengi pundsins hefur fallið verulega gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins á undanförnum mánuðum. Sé sérstaklega horft á gengi pundsins gagnvart krónunni þá nemur fallið um 25 prósentum á undanförnu ári. Pundið kostar nú 153 krónur en það kostaði 206 krónur fyrir ári síðan.