Íslensk lög um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum eru ekki í samræmi við EES-samninginn, samkvæmt Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. ESA sendi frá sér rökstutt álit um málið í dag og segir að innflutningstakmarkanir geti valdið innflutningsaðilum erfiðleikum við að koma vörum sínum á markað.
ESA segir að íslensk löggjöf feli í sér innflutningstakmarkanir á hráum eggjum og vörum úr þeim sem og ógerilsneyddri mjólk og mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. ESA telur að þessar kröfur stangist á við tilskipun um eftirlit með dýraheilbrigði.
Vörur úr eggjum og mjólk sem viðskipti eru með innan Evrópska efnahagssvæðisins lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkinu. Eftirlit í viðtökuríki er hins vegar takmarkað við stikkprufur. ESA segir að yfirgripsmikið regluverk ESB sé sérstaklega hannað til að draga úr áhættu og minnka líkur á að sjúkdómsvaldar berist milli landa. Víðtækt kerfi varúðarráðstafana sé við lýði ef hætta skapist á útbreiðslu sjúkdómsfaraldurs innan EES.
ESA telur að þegar kemur að innflutningstakmörkunum á mjólkur- og eggjavörum séu uppi sömu röksemdir og á innflutningi á hráu kjöti. EFTA-dómstóllinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kröfur íslenska ríkisins þegar kemur að innflutningi á hráu kjöti brjóti í bága við EES samninginn.
ESA rekur einnig samningsbrotamál gegn Íslandi vegna innflutninga á hráu kjöti, hefur sent rökstutt álit í því máli fyrir tæpum tveimur árum síðan og óskað eftir viðbrögðum frá íslenskum stjórnvöldum eftir að EFTA-dómstóllinn komst að sinni niðurstöðu í fyrra. „Enn sem komið er hafa engar laga- eða reglubreytingar átt sér stað,“ segir ESA.
Rökstutt álit er annað skrefið í meðferð samningsbrotamáls, og ef íslensk stjórnvöld bregðast ekki við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.