Forsvarsmenn Deutshce Banka, eins stærsta banka Evrópu, sögðust í gær ekki hafa neinn hug á því að greiða fjórtán milljarða Bandaríkja, rétt um 1.600 milljarða króna, í sektargreiðslu vegna mála sem hafa verið til rannsóknar hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum, og tengjast skuldabréfavafningum. Markaðsvirði bankans féll um rúmlega átta prósent eftir að tilkynning bandaríska dómsmálaráðuneytisins var birt, þar sem bankanum var gert að greiða 14 milljarða Bandaríkjadala í stjórnvaldssekt.
Forsvarsmenn bankans gera sér vonir um að stjórnvaldssektin verði lækkuð, en viðræður milli bankans og ráðuneytisins munu halda áfram á næstu mánuðum, þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Fordæmi eru fyrir því að sektir lækki umtalsvert eftir slíkar viðræður. Þannig lækkaði stjórnvaldssekt Citigroup árið 2012 úr 12 milljörðum Bandaríkjadala í sjö, vegna svipaðra mála, það er svonefndra undirmálslána og skuldabréfavafninga frá árinu 2007 og 2008.
Í umfjöllun Bloomberg í dag kemur fram að fjárfestar hafi áhyggjur af því að bankinn geti ekki tekist á við himinháar sektir, og þurfi að endurskipuleggja reksturinn vegna þeirra, þar á meðal að selja eignir. Nú þegar hefur bankinn sett til hliðar um 6 milljarða Bandaríkjadala til að mæta mögulegum sektum, en það er innan við helmingur af sektargreiðslunum sem nú liggja fyrir.
Nú þegar hefur bankinn greitt um níu milljarða Bandaríkjadala í sektir, frá árinu 2008, eða sem nemur um 1.100 milljörðum króna.
Sektin kemur líka á vondum tíma fyrir bankann núna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC, þar sem reksturinn hefur farið versnandi. Þannig féllu tekjur bankans um 20 prósent á öðrum ársfjórðungi þessa árs, miðað við sama tíma í fyrra, og hagnaður dróst saman um 67 prósent.