Helstu hagsmunagæslusamtök bandarískra bankamanna hafa skrifað fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Jacob Lew, bréf og hvatt hann til þess að reyna að beita sér fyrir því, að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu gangi hratt og vel fyrir sig.
Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Í bréfinu lýsa nokkur helstu samtök fjármálageirans í Bandaríkjunum yfir áhyggjum sínum vegna þess að þau telja að útgangan, þegar hún verður formlega að veruleika, muni hafa mikil áhrif á heimsbúskapinn og ekki síst fjármálageirann. Störf muni hverfa og neikvæð áhrif verði mikil og varanleg.
Samtökin sem um ræðir eru American Bankers Association, The Financial Services Forum, The Financial Services Roundtable and The Securities Industry and Financial Markets Association.
Í bréfinu eru sérstaklega talin upp fjögur atriði, sem Lew er beðin um að hafa bak við eyrað, þegar þjóðir heims, bæði í Evrópusambandinu og utan þess, fara að ræða um næstu Brexit-skref og kortleggja möguleg áhrif.
1. Viðræður um útgöngu verði gagnsæjar.
2. Hluthafar úr viðskiptalífinu verði hafðir með í ráðum og til ráðgjafar.
3. Bretland og Evrópusambandið geri með sér samkomulag sem sé í samræmi við alþjóðlega staðla.
4. Óvissu verði eytt eða hún minnkum eins og mögulega er hægt.
Viðræður um hvenær Bretland mun yfirgefa Evrópusambandið eru ekki hafnar og raunar leikur vafi á því hvenær þær munu gera það. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að ríkisstjórn hennar muni beita sér fyrir því að hafa allt uppi á borðum og stefna að útgöngu eins hratt og mögulegt er. Það verði þó gert á forsendum Bretlands, fremur en Evrópusambandsins.
Forystufólk Evrópusambandsins hefur hins vegar ítrekað að nauðsynlegt sé fyrir Breta að eyða óvissu um málið, og flýta ferlinu enn meira. Ekki sé eftir neinu að bíða. Bretland eigi að yfirgefa Evrópusambandið, eins hratt og mögulegt er, fyrst það er vilji landsmanna og ríkisstjórnarinnar.