Ákveðið hefur verið að senda þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, um staðfestingu EES reglna um fjármálaeftirlit, aftur í nefnd. Þetta var gert eftir hörð mótmæli fjölda þingmanna á þingfundi í morgun, en greiða átti atkvæði um málið á fundinum.
Ástæða mótmælanna eru ummæli Bjargar Thorarensen, prófessors í lögfræði og sérfræðings í stjórnskipunarrétti, um tillöguna. Björg sagði við Morgunblaðið í gær að henni þætti málið ekki hafa tekið nægum lagfæringum og að það verðu „ekkert lengra komist í að teygja stjórnarskrána heldur en orðið er.“ Samkvæmt tillögunni verði framsal valdaheimilda til yfirþjóðlegrar stofnunar gríðarlega mikið, meira en rúmast innan stjórnarskrárinnar.
Björg sagði jafnframt: „Mín skoðun er sú að forsendurnar sem voru uppi við gerð EES-samningsins 1992 séu brostnar. Þess vegna tel ég þessar lagfæringar, sem hafa verið gerðar til þess að fella þær að tveggja stoða kerfinu, ekki breyta eðli málsins. Þetta er nýtt framsal á nýjum sviðum.“
Það var Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, sem vakti athygli á málinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Hann spurði Eygló Harðardóttur, sem er starfandi utanríkisráðherra, um málið. Hann sagði að risið hafi alvarleg stjórnskipuleg álitaefni vegna málsins, sem feli í sér meira framsal á ríkisvaldi en nokkur dæmi séu um. „Framsalið er ekki vel afmarkað, er ekki á þröngu sviði og er verulega íþyngjandi. Það veitir m.a. yfirþjóðlegri stofnun rétt til að grípa inn í hvers kyns fjármálastarfsemi og við sérstakar aðstæður rétt til þess að stöðva á einni nóttu rekstur slíks fyrirtækis. Þetta er miklu meira framsal en við höfum séð áður.“ Allir þingmenn sem tóku þátt í umræðu um málið, fyrir utan einn, hafi verið á sama máli.
„Nú er uppi ný staða í málinu. Nú hefur það gerst að einn af helstu stjórnskipunarfræðingum landsins, Björg Thorarensen prófessor, hefur stigið fram og gefið tvöfalda yfirlýsingu um að hún sé sammála þessu og telji að þetta rúmist ekki innan stjórnarskrárinnar.“ Hann spurði því hvaða skaði yrði þótt málinu yrði frestað og utanríkismálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, skoði málið þar til í næstu viku.
Eygló svaraði því til að hún hefði rætt við Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra um málið og samkvæmt upplýsingum frá henni teldu stjórnvöld málið rúmast innan heimilda og búið væri að vinna málið lengi.
„Ætlar hæstvirtur ráðherra að koma hingað og segja að það sé í lagi að böðlast áfram með málið og þar með að leggja blessun sína yfir það að framkvæmdarvaldið gangi á skítugum skóm yfir stjórnarskrána? Hefur ekki hæstvirtur ráðherra svarið eið að stjórnarskránni?“ spurði Össur þá.
„Eins og ég sagði í svari mínu hlustaði ég og skil að þetta mál sé umdeilt. Hins vegar hefur verið talið og það hefur utanríkismálanefnd án efa farið mjög vel yfir, sem og utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið, og talið að þetta rúmaðist innan þeirra heimilda sem við höfum. Það var forsendan fyrir því að ráðherrann mælti fyrir þessu máli og utanríkismálanefnd afgreiðir það síðan. Ég get raunar ekki bætt neinu við hvað það varðar,“ svaraði Eygló.
Að loknum fyrirspurnatímanum kvöddu sér fjölmargir þingmenn hljóðs og óskuðu eftir því að málið yrði tekið af dagskrá. „Alþingi getur ekki gengið til atkvæða og greitt atkvæði gegn faglegu áliti helsta sérfræðings landsins um stjórnarskrána sem við höfum svarið eið að,“ sagði Helgi Hjörvar um málið. Nafni hans Helgi Hrafn Gunnarsson tók undir með honum. „Ég mæli eindregið með því að við frestum þessari atkvæðagreiðslu þar til málið er útkljáð. EES má bara bíða eftir því að Alþingi Íslendinga tryggi að reglugerðin standist stjórnarskrá. Ekkert í okkar störfum er sjálfsagðara en það.“
„Við erum ekki að tala um hvaða mál sem er, við erum að tala um það að rökstutt er af einum helsta sérfræðingi Íslands í stjórnskipunarrétti að hér verði ekki lengra komist í því að teygja stjórnarskrána. Ég held í ljósi þess að þetta kom fram í gær að við verðum einfaldlega að fresta þessari atkvæðagreiðslu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, og sagði óábyrgt að gera annað en fresta málinu.
Eygló Harðardóttir kom þá aftur upp í ræðustól og óskaði eftir því að gert yrði hlé á fundinum og þingflokksformenn myndu ráða ráðum sínum. Það var gert og ákveðið var að málið yrði sent aftur inn í nefnd, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.