Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, hafa verið ákærð af héraðssaksóknara fyrir umboðs- og innherjasvik. Þetta kemur fram í ákæru á hendur honum sem Kjarninn hefur undir höndum.
Hreiðari Má er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína gróflega með því að láta Kaupþing veita einkahlutafélagi sínu tæplega 600 milljóna króna eingreiðslulán, sem hann hafi fengið án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar eða fullnægjandi trygging.
Hann hafi svo keypt hlutabréf í bankanum fyrir 246 milljónir í eigin nafni samkvæmt kauprétti. Þetta gerðist þann 6. ágúst 2008. Sama dag hafi svo einkahlutafélag hans sjálfs keypt hlutina af honum fyrir 572 milljónir króna, sem var fjármagnað með láninu sem hann fékk hjá Kaupþingi. Mismunurinn, 324 milljónir króna, rann svo inn á bankareikning Hreiðars Más seinna í sama mánuði og hann hafi því grætt þá upphæð á viðskiptunum. Lánið var á gjalddaga árið 2011, en þá var búið að taka einkahlutafélagið til gjaldþrotaskipta.
Í ákærunni segir að hafa verði í huga við hvaða aðstæður og á hvaða tíma þetta átti sér stað, hlutabréfaverð hafi fallið verulega á þessum tíma.
Héraðssaksóknari segir í ákærunni að Hreiðar Már hafi á þessum tíma búið yfir innherjaupplýsingum um að skráð markaðsverð hlutabréfa í bankanum hafi ekki gefið rétta mynd af verðmæti þeirra heldur verið hærri en efni stóðu til vegna „langvarandi og stórfelldrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum“ frá nóvember 2007, sem hann sjálfur átti þátt í.
Hreiðar er því ákærður að hluta á grundvelli þess að búið er að sakfella hann í héraðsdómi fyrir markaðsmisnotkun. Það mál er hins vegar til meðferðar Hæstaréttar og ef hann verður sýknaður í Hæstarétti verður fallið frá ákærunni um innherjasvik.
Guðný Arna er ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Hún er sögð hafa aðstoðað við að koma þeim fram, sérstaklega með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans um uppgjör og frágang vegna verðbréfaviðskipta og lánveitinga til félags Hreiðars Más. Hún hafi vitað eða henni ekki getað dulist að ófullnægjandi tryggingar væru fyrir lánveitingu.