Kjarninn miðlar ehf. tilkynnir um útgáfu á pistlasafni Hrafns Jónssonar „Útsýnið úr fílabeinsturninum - Saga af kjörtímabili“. Söfnun fyrir útgáfunni, og sala á bókinni, stendur nú yfir á Karolina Fund. Hægt er að leggja henni lið og eignast eintak hér. Náist sett markmið er stefnt að útgáfu bókarinnar í kringum komandi kosningar.
Hrafn Jónsson (Krummi) eyddi gullárunum sínum í að vera latur, feitur og óöruggur. Eina skiptið sem hann hafði eignast peninga var eftir að hann varð fyrir strætisvagni og fékk miskabætur. Allt var þetta partur af hans púpunarferli og þegar Hrafn hóf að skrifa pistla fyrir Kjarnann í byrjun árs 2014 braust hann loksins út og breiddi út vængina eins og háruga, föla og sífellt verr tennta fiðrildið sem hann er.
Pistlarnir hafa notið gríðarlegra vinsælda. Í þeim fjallar hann á hæðin hátt - en með beittum undirtón - um þjóðfélagsumræðu hvers tíma.
Í ljósi þess að óvissutímar eru fram undan í íslenskum stjórnmálum þá var það mat aðstandenda verkefnisins að ekki verði hægt að treysta því að Internetið verði hér til frambúðar.
Þess vegna þarf að koma pistlum Hrafns um þjóðfélagsmál, sem eru nú á þriðja tug þúsund orð, á prent. Aðeins þannig tryggjum við að pistlarnir endi í bundnu máli á Landsbókasafninu. Og Hrafni inngöngu i Rithöfundasamband Íslands nú þegar búið er að reka hann úr Tel Aviv norðursins, Plain Vanilla.
Kjarninn ætlar að koma slíku riti út í aðdraganda komandi kosninga svo Íslendingar geti fengið heildrænt yfirlit yfir þá atburðarás sem átt hefur sér stað á þessu kjörtímabili, séð með augum Hrafns Jónssonar.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, mun skrifa inngang að hverjum pistli til að setja þá í samhengi við þjóðfélagsumræðuna hverju sinni og ef nægir peningar safnast þá er stefnt að því að fá einhvern heimsfrægan til að rita inngang hennar. Hrafn mun síðan sjálfur rita ódauðleg lokaorð.