Flokksþing Framsóknaflokksins kýs formann, varaformann, ritara, laganefnd og siðanefnd í Háskólabíó í dag. Framboðsræður þeirra sem hafa gefið kost á sér verða sýndar beint í streymi Framsóknarflokksins og eiga að hefjast klukkan 11:30 samkvæmt dagskrá. Einhverjar tafir hafa orðið á dagskránni og enn er verið að greiða atkvæði um skýrslur málefnahópa á flokksþinginu. Hægt er að horfa í spilaranum hér að neðan.
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og núverandi forsætisráðherra, gefa báðir kost á sér í embætti formanns flokksins. Í embætti varaformanns hafa bæði Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Eygló Harðardóttir, velferðarráðherra, boðið sig fram.
Samkvæmt frásögnum fjölmiðla af flokksþinginu virðist vera mjög erfitt að átta sig á hvort Sigmundur Davíð eða Sigurður Ingi njóti meiri stuðnings meðal flokksþingsfulltrúa. Það mun því að öllum líkindum veðra mjög mótt á munum og viðbúið að ef einungis fáein atkvæði skilja á milli að talið verði tvisvar. Það verður eflaust ekki síður gert til þess að koma í veg fyrir atvik eins og þegar Sigmundur Davíð var fyrst kjörinn sem formaður flokksins. Þá gerði kjörstjórnin mistök og sagði Höskuld Þórhallsson vera réttkjörinn formann, en þurfti svo að slíta sigurræðu Höskuldar til að tilkynna að hann væri alls ekki formaður.
Hömruðu á trausti innanflokks og utan
Öll fluttu þau ræður á flokksþinginu í gær og gerðu grein fyrir starfi sínu sem ráðherrar í ríkisstjórn. Sigmundur Davíð flutti sitt erindi sem formaður flokksins á hundrað ára afmæli hans. Þar talaði einnig Gunnar Bragi sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann var eini ráðherrann sem lýsti yfir stuðningi við annan frambjóðandann í formannskjörinu; Sigmundur Davíð hlaut það lof. Í ræðum sínum í gær fjölluðu báðir um traust og samvinnu í ræðum sínum en nálguðust það frá mismunandi endum.
Sigmundur Davíð talaði sem formaður flokksins í nærri því klukkustund og fór vítt og breitt yfir áherslur flokksins, bæði sögulegar áherslur og þau málefni sem flokkurinn hefur barist fyrir undir forystu hans. Hann vísaði ítrekað í ræðu sem hann hélt á flokksþingi fyrir fimm árum og lagði áherslu á þá samstöðu sem hann sagði einkenna Framsóknarmenn þegar þeir standa frammi fyrir stórum og erfiðum verkefnum.
Við hugsanlegar stjórnarmyndanir í kjölfar kosninganna í lok mánaðarins sagði Sigmundur Davíð að Framsókn vilji ekki bara fá að vera með, heldur taka þátt út frá styrkleika. Flokkurinn hefur verið að mælast með um og yfir 10 prósent fylgi í Kosningaspánni undanfarnar vikur. Í kosningunum árið 2013 hlaut flokkurinn 24,4 prósent fylgi og 19 þingmenn og gat myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Sigurður Ingi fjallaði um þann traustsmissi sem Framsóknarflokkurinn og forysta flokksins hefur orðið fyrir í kjölfar þess að upp komst um eignir Sigmundar Davíðs í aflandsfélagi. „Það hefur ýmislegt gerst síðan við komum saman síðast á flokksþingi,“ sagði hann og rak það hvernig hann hafi tekið það verkefni að sér að halda ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn áfram eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér.
Sigurður Ingi lagði áherslu á að til þess að geta haft áhrif á framvindu mála yrði flokkurinn að geta unnið með öðrum flokkum og aðrir flokkar að geta unnið með honum. „Við verðum að vera í aðstöðu til þess að hafa áhrif á framvindu mála,“ sagði hann og spurði síðan: „Hver er staðan nú í þeim efnum?“.
Drama
Beinni vefútsendingu Framsóknarflokksins, sem Kjarninn birti hér á vefnum í gær, lauk um leið og Sigmundur Davíð lauk ræðu sinni. Inntur eftir svörum sagði Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs og tengiliður fjölmiðla vegna flokksþingsins, að þetta hefðu verið mistök og ekki samkvæmt þeim fyrirmælum sem tæknimenn hefðu fengið. Tæknimennirnir eru þessu hins vegar ósammála og segja að farið hafi verið í einu og öllu eftir fyrirmælum forsvarsmanna flokksþingsins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður fokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, lét þung orð fallaá flokksþinginu í gær. Hann lýsti því hvernig Sigmundur Davíð hafi yfirgefið fund framkvæmdastjórnar flokksins í fússi á föstudag og neitað að ræða dagskrá flokksþingsins. Ekki hafði verið gert ráð fyrir erindi forsætisráðherra fyrr en eftir þennan fund framkvæmdastjórnarinnar.
Í umfjöllun RÚV um málið segir að formaðurinn hafi yfirgefið fundinn þegar ræða átti dagskrá flokksþingsins en Eygló Harðardóttir hafi gengið á eftir honum og spurt hvort það væri ekki hægt að líta á dagskrá flokksþingsins. „Síðan hefðu nokkur vel valin orð verið látin falla og hurðum skellt. Ásmundur sagði orð eins og sáttavilja og samstarf ekki hafa komið upp í hugann heldur hroki og einræði.“
Frásögn Ásmundar Einars var svo hrakin af Sigmundi Davíð sjálfum, sem sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með ræðuna. Ásmundur Einar segir aðra sem voru á fundinum geta staðfest frásögn sína.