Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi í dag. Hann tekur við embættinu af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og verður 17. formaður flokksins í hundrað ára sögu hans. Sigmundur Davíð bauð sig einnig fram en laut í lægra haldi og tapaði þess vegna formannsstólnum.
Sigurður Ingi hlaut 370 atkvæði gegn 329 atkvæðum Sigmundar Davíðs. Þrjú atkvæði voru greidd fyrir Lilju Alfreðsdóttur en hún býður sig fram sem varaformann flokksins.
Mikil eftirvænting var vegna formannskjörsins enda þótti mjótt á munum milli þeirra Sigurðar og Sigmundar. Mikil óánægja hafði ríkt um forystu flokksins fyrir flokksþingið, eða síðan Sigmundur Davíð neyddist til þess að segja af sér sem forsætisráðherra í byrjun apríl á þessu ári. Þingflokkur Framsóknarflokksins hafði til að mynda ákveðið að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra áður en ráðherrann kom á fund þingflokksins og bauðst sjálfur til þess að stíga til hliðar.
Framsóknarflokkurinn hefur undanfarið mælst með um 11 prósent fylgi í Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Stuðningur við flokkinn með Sigmund Davíð í forystu eða ekki hefur einnig verið kannaður. Í könnun Fréttablaðsins sögðust aðspurðir vera frekar líklegri til að kjósa Framsóknarflokkinn með Sigurð Inga í brúnni.
Í könnun Gallup sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið og birt var 29. september kom hins vegar í ljós að Sigmundur Davíð naut stuðnings meirihluta Framsóknarmanna. Sigurður Ingi naut hins vegar yfirburðarstuðnings meðal stuðningsmanna allra flokka; 47 prósent vilja hann sem formann Framsóknarflokksins.