Nýjar tölur Hagstofu Íslands, um þátttöku í forsetakosningunum í sumar, sýna að yngsti kjósendahópurinn fer síður á kjörstað en aðrir hópar.
Kosningaþátttaka var minnst hjá aldurshópnum 20 til 24 ára, eða 63,1 prósent, en þátttakan í kosningunum var 75,7 prósent. Hjá allra yngsta hópnum, 18 til 19 ára, var hún 63,8 prósent. Hæsta hlutfallið var hjá fólki á aldrinum 65 til 74 ára, en það var 87 prósent.
Frá 50 ára og upp að 80 ára aldri er hún yfir meðaltali.
Við kosningarnar voru alls 244.896 á kjörskrá eða 73,6 prósent landsmanna. Af þeim greiddu 185.430 atkvæði.
Hlutfall utankjörfundaratkvæða af greiddum atkvæðum var 23,1 prósent.
Sögulega var kjörsókn í meðallagi góð. Á árunum 1968 til 1980 var hún best, en hún fór þá upp undir 90 prósent.