Fjárfestahópur sem leiddur er af Einari Erni Jónssyni, oftast kenndur við Nóatún, hefur eignast 90 prósent hlut í ísgerðinni Emmessís. Aðir í hópnum eru Þórir Örn Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sector viðskiptaráðgjafar, Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri Emmessís og fyrrverandi formaður Samtaka íslenskra sparisjóða, og Gyða Dan Johansen, fyrrverandi rekstrarfulltrúi hjá 365 miðlum. Gyða Dan er einnig eiginkona Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar, sem stofnaði og rak Emmessís í tæp 50 ár þangað til að fyrirtækið var selt fjárfestum árið 2007. Frá þessu er greint í
DV í dag.Þar segir að hópurinn hafi farið inn í hlutahafahóp Emmessís í ágúst og lagt ísgerðinni til nýtt hlutafé upp á 50 milljónir króna. Fyrirtækið veltir um 850 milljónum króna á ári en hefur glímt við rekstrarerfiðleika á undanförnum árum. Það var áður í eigu Sparisjóðabankans (SPB), sem fór á hliðina eftir bankahrunið og lauk nauðasamningum fyrr á árinu, og verðbréfafyrirtækisins Arev. Einkahlutafélagið SPB, sem stofnað var í kjöfar nauðasamningagerðar SPB fyrr á þessu ári, er að fullu í eigu dótturfélags Seðlabanka Íslands, ESÍ. Framkvæmdastjóri þess félags, Haukur C. Benediktsson, er stjórnarformaður SPB.