Fleiri en einn aðili hefur lagt fram kvörtun eða kæru vegna formannskosninganna í Framsóknarflokknum sem fóru fram á flokksþingi hans 2. október síðastliðinn. Frá þessu er greint á RÚV. Þar staðfestir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, að framkvæmd formannskjörsins hafi verið kærð.
Í formannskjörinu sigraði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þá sitjandi formann, með rúmlega 40 atkvæða mun.
Formannskosningarnar á flokksþingi Framsóknarflokksins voru dramatískar. Eftir að tilkynnt var um sigur Sigurðar Inga, og hann fór í pontu til að halda sigurræðu, sat Sigmundur Davíð sem fastast í sæti sínu. Hann gekk síðan út úr Háskólabíói, þar sem fundurinn fór fram, á meðan að Sigurður Ingi lauk ræðu sinni.
Sigmundur Davíð hefur síðar sagt að það hafi komið sér mjög á óvart að hafa tapað kosningunum. Í viðtali við Reykjavík Síðdegis í síðustu viku sagðist hann hafa orðið vitni að undirförli, hannaðri atburðarás, endalausum spuna og algjörum skorti á prinsippum í aðdraganda og á flokksþinginu sjálfu.
Hann hefur þó þvertekið fyrir að ætla í sérframboð, þrátt fyrir áskoranir þar um, og ætlar að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum líkt og hann hefur fengið umboð til.